01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jón Þorláksson:

Jeg hefi ekki mikið að segja út úr sjálfsvörn háttv. frsm. fjvn. (MP), annað en að þakka honum fyrir þær skýringar, sem hann gaf á því, hvernig þetta mál fer fram og hefir komist í núverandi horf undir forustu fjvn. Háttv. frsm. (MP) sagðist ekki sjá, hvaða ávinningur það væri að fresta til næsta árs fjárveitingum, sem þyrftu að greiðast hvort sem væri á þessu ári. Ef hann skilur ekki muninn á því, að fresta fjárveitingum til reglulegra fjárlaga, heldur en að taka þær upp í fjáraukalög, þá er ekki von að vel fari. Útlistun á þessu ætti heldur heima í kenslustund í þeirri námsgrein, sem mætti kalla framkvæmdarstjórnarfræði, heldur en í þingsalnum, en úr því háttv. frsm. (MP) lætur í ljósi vanþekkingu á eins einföldu undirstöðuatriði og þessu, verð jeg að biðja um leyfi til að eyða ofurlitlu af tíma deildarinnar til skýringar.

Þegar verið er að semja fjárlög, þá er venjulegast reynt að ganga svo frá þeim, að gjöldin verði helst ekki meiri en tekjurnar. Og kemur þá fram á þeirri metaskál, að tekið er tillit til gjaldþols ríkissjóðs. Þó að þetta verði ekki ætíð til þess að fella þær tilteknu fjárveitingar, sem komið hefði til álita að setja í aukafjárlög, þá getur það leitt til þess að víkja öðrum frá og halda fjárhagnum í rjettu horfi. Í fjárlögunum vegur hver fjárveiting með sínum fulla þunga móti tekjunum og framkallar hina eðlilegu viðleitni til að útvega tekjur á móti, eða draga úr gjöldum, svo að ekki komi fram tekjuhalli. Þetta hefði átt að vera ljóst háttv. frsm. fjvn. (MP), sem er fastari í þeim sessi ár eftir ár en nokkur stjórn í sínu sæti.

Það er betra að hafa slíkar aukafjárveitingar í fjárlögum næsta árs, af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú greint, heldur en að hafa þær í fjáraukalögum, þar sem engar tekjur eru til að mæta gjöldunum.

Háttv. frsm. (MP) sagði, að þá kæmu bara fjáraukalög frá stjórninni, sem ekki væri hægt að hafa nein áhrif á eða breyta. Já, ef það væri nú svo, að þessi fjáraukalög gætu losað þingið við önnur fjáraukalög á næsta þingi fyrir árið 1923, þá væri það gott. En þó að þessi lög sjeu gerð nú, þá eru önnur eftir fyrir sama ár, og engin trygging er fyrir því, að þau síðari verði að neinum mun lægri, þó þessi sjeu nú sett. Annars má segja það um afstöðu háttv. fjvn., að hún hefði verið fyrirgefanleg, ef hún hefði aðeins mælt með þeim upphæðum, sem stjórnin þurfti nauðsynlega að nota á þessu ári. Þetta hefði nefndin getað gert og var vel sæmd af að gera, eftir skýringum háttv. frsm. (MP) um heimild handa stjórninni til fjármeðferðar. Fyrst út af þessu var brugðið, er ekki hægt að greina á milli, hvað er rjett að samþykkja og hvað ekki.