07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

139. mál, fjáraukalög 1923

Karl Einarsson:

Hv. frsm. (EÁ) sagði, að fjvn. hefði ekki sjeð sjer fært að mæla með brtt. mínum, vegna þess að hún vildi stemma stigu fyrir auknum útgjöldum.

Jeg ætla nú ekki að fara að þreyta háttv. deild á því að fara að lesa upp þau þrenn fjárlög, sem þingið er nú í þann veginn að samþykkja, til þess að sanna með samanburði þeirra og till. minna, að sá samanburður fjelli okkur Vestmannaeyingum í vil. Í þessum 3 fjárlögum eru veittar um 10 milj. kr., og er varla sennilegt, að allar þær upphæðir sjeu þarfari en brtt. mínar.

Reynslan vill verða sú, að þau hjeruð, sem minst leggja til sjálf, en mest heimta, bera mest úr býtum hjá háttv. Alþingi.

Vestmannaeyingar hafa styrkt Þór mjög vel. Enda er hann þeim mikið nauðsynjamál. Þeir hafa stundum orðið að senda menn út til bjarga, í ófært veður, og orðið fyrir því óláni að sjá hvorki bát nje menn aftur. Þannig hafa 2 bátar farist við björgun og 2 menn af þeim þriðja, síðan jeg kom til Vestmannaeyja. Og þetta getur altaf komið fyrir, því Vestmannaeyingum er nauðsynlegt að stunda sjóinn, og það um hávetur, það getur auðvitað komið fyrir, að bátur farist, þó að Þór sje við Eyjarnar, en frá hinu er forðað, að stofna fleiri bátum og mannslífum í hættu við björgunartilraunir.

Það er því sjálfsagt að samþykkja þetta atriði. Bryggjan gæti frekar beðið. Enda hefir verið tekið lán til hennar, fyrst úr hafnarsjóði, síðan í banka. En þó þetta falli núna, þá verður því auðvitað haldið fram af fulltrúa Vestmannaeyinga á næsta þingi. Jeg fer ekki út í samanburð nú, en hann má gera síðar og sanna með honum, að ýmsar upphæðir eru veittar, sem eru hreinasta sóun á fje, samanborið við þetta nauðsynjamál.