11.05.1923
Neðri deild: 61. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jón Baldvinsson:

Við 2. umr. þessa frv. bar hæstv. stjórn fram brtt. um 7500 kr. fjárveitingu til að styrkja ýmsa menn til utanfarar, enda lágu þá fyrir eigi fáar umsóknir um styrki í því skyni, en þetta var felt hjer í deildinni. Síðan hafa komist inn í þessi fjáraukalög nokkrir utanferðastyrkir, en nú vill háttv. fjvn. breyta þessu aftur og slá því öllu í eina upphæð, er stjórnin svo fari með og úthluti eftir geðþótta. Jeg tel þessa enga þörf, enda langt frá því, að sparnaður sje að þessari till. háttv. fjvn., sem fer fram á nokkra hækkun frá því, sem komið er inn í fjáraukalögin. Sje jeg því ekki, að ástæða sje til þess að breyta þessu aftur; þingið er þegar búið að sýna vilja sinn í þessu efni, hverjar styrkveitingar það vill taka til greina, og stjórnin hefir ærinn vanda á höndum, þótt eigi bætist þar við sá, að skifta þessu milli hinna mörgu umsækjenda, sem munu þá streyma til hennar, og ef til vill fleiri en þegar eru komnir. Að vísu hefir hæstv. stjórn ástæðu til þess að skoða sig bundna við þær upphæðir, sem þegar eru komnar inn í fjárlögin, og láta þá ganga fyrir, en þá er ekki eftir af fjárhæðinni nema einar 500 krónur.

Jeg hefi heyrt á sumum, að þeim þætti styrkurinn í 6. gr. 9. tölulið fullhár, borinn saman við hina utanfararstyrkina. En þess er að gæta, að maður sá, sem hjer um ræðir, fer utan til þess að nema, og þarf því að dvelja lengur en þeir, sem fara til þess að sitja á fundi í nokkra daga.

Vænti jeg fastlega, að háttv. deild sjái sjer fært að láta þetta standa óhaggað og breyti í engu frá sinni fyrri ákvörðun um þessa liði fjáraukalaganna.