11.05.1923
Neðri deild: 61. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

139. mál, fjáraukalög 1923

Bjarni Jónsson:

Hjer hafa þau undur orðið nýlega, að háttv. Ed. hefir gert sjer það að ætlunarverki að vera einskonar yfirfjárhirðir alls þingsins, og hefir hún reynt að ná í sínar hendur úrslitaúrskurðarvaldi um alla? fjárveitingar Nd.

Hefir háttv. Ed. sjerstaklega ráðist á styrkinn til Kristjáns Jónassonar í Borgarnesi, sem Nd. hafði ákveðið að bæta að nokkru skaða þann, er hann hafði beðið af einangrun gistihúss hans.

Jeg veit ekki, eftir hvaða grundvallarreglum háttv. Ed. hefir farið í því að fella þennan styrk tvisvar niður, þó hann hafi jafnan aftur verið tekinn upp og samþyktur hjer í Nd. með allmiklum atkvæðamun í hvort skifti. (MP: Ætli það geti stafað af því, að háttv. þm. Dala. bar þetta fram?j. Það má einu gilda hver flytur; háttv. Nd. hefir margsinnis samþykt þetta, og gerir það væntanlega enn, enda hefir hjer aldrei verið viðurkend fjárhaldsmenska Ed., þrátt fyrir það, að hún sitji með þennan halaklepp, sem hún hefir og eru leifar hinna gömlu konungskjörnu þm. Hafa þeir aldrei verið ætlaðir til þess að draga fjárveitingarvaldið úr höndum Nd., þótt þeim sje ætlað að vera gætnir menn, en eigi byltingasinnaðir, sem jeg og vænti, að þar sjeu engir,— eða hvað ? Jeg hefi því leyft mjer að taka þennan í styrk enn þá upp, og þótt Ed. hreyki sjer í svo mjög, vænti jeg, að háttv. Nd. gefi þá þeim miklu mönnum í Ed. tækifæri til að fella þetta enn niður, ef þeir vilja.

Þá vil jeg minnast nokkrum orðum á styrkinn til þess að sækja sagnfræðingafundinn í Gautaborg. Þessi fundur var síðast haldinn í Oslo, og var þá ákveðið, að þjóðskjalaverðir skyldu einnig sækja þessa fundi. Nú hefir þjóðskjalaverðinum hjer verið skrifað um þetta og honum boðið að sitja fundinn í sumar. Þótti sjálfsagt, að hann tæki með sjer sögukennarann við háskóla Íslands, og ætti það að vera auðvelt fyrir Íslendinga að halda sig til jafns við aðrar þjóðir í sagnfræði, þar sem þeir hafa skipað öndvegið síðan á dögum Snorra Sturlusonar. Það er hvort sem er ekki of margt, sem verður til þess að vekja athygli á slíku smáríki og Ísland er, og ætti þetta því ekki að dragast undan. Vegna þess, að mjer er kunn sparsemi háttv. þingmanna. ber jeg fram til vara, að aðeins fari annar þessara manna á fundinn, og eftir beiðni sögukennarans, próf. dr. Páls E. Ólasonar, læt jeg það óákveðið, hvor þeirra fari, þar sem hann vill eigi halda þessu fremur til sín en þjóðskjalavarðarins.

Þá þarf jeg ekki að fara mörgum orðum um brtt. á þskj. 621, VII; mun hinn flutningsmaðurinn (JakM) mæla þar skörulega með henni. En jeg vil aðeins geta þess, að það var samþykt í fjvn., að Gísla Sveinssyni sýslumanni væri bættur upp sá kostnaður, sem hann hefir haft af embættinu, er hann hefir orðið að launa manni til þess að gegna því fyrir sig, og hefir sá kostnaður hans numið meiru en 3 þús. kr. Stjórnin hefði átt að endurgreiða honum þennan kostnað, en það hefir þó eigi orðið, sem er þó meira en sanngjarnt í samanburði við það, sem gert hefir verið við ýmsa aðra embættismenn. Þessar 3 þús kr. ættu því að fá að standa óbreyttar, þó Ed. vilji færa þetta niður í 2 þús. kr. Þykir mjer þetta því kynlegra hjá háttv. Ed., sem hún hefir bætt úr ranglæti Nd. og veitt styrk til Jóns Jónssonar læknis, en það getur aldrei komið til neinna mála, að Gísli Sveinsson borgi Jóni Jónssyni, en þó lítur helst svo út, sem Ed. ætlist til þess, og það eigi að alllitlu leyti. Þrátt fyrir þetta, er jeg samt þakklátur Ed., að hún tók upp styrkinn til Jóns Jónssonar, sem Nd. hafði felt, en vænti nú, að háttv. Nd. lofi honum að standa áfram, en hækki aftur styrkinn til Gísla Sveinssonar.

Þá er enn lánveitingin til Sigurðar bónda Lýðssonar á Hvoli í Dölum sem Ed. hefir felt tvisvar, en af hvaða ástæðum, veit jeg ekki, þar sem sú hv. deild er staðin að því að hækka og bæta við ýmsar lánveitingar, og rekur þetta sig því hvað á annað. „Eitt rekur sig á annars horn, eins og búpening hendir vorn.“

Skil jeg ekki, hví háttv. þm. hafa eigi getað fallist á þetta, þar sem hjer er í boði veð í góðri jörð, en fasteignir slíkar hafa jafnan verið taldar bestu veðin fyrir lánum. Þá hefir og þingið hvatt menn mjög til nýbýlaræktar, og þetta ætti því að vera þeim þm. ljúft að samþykkja, sem þá hugmynd hylla. Þetta er og nýbýli, sem Indriði bróðir Gísla Konráðssonar bygði fyrstur og bjó þar lengi. Svínadalssel er sjálfsagt hæli ferðamönnum í illum veðrum, ef þar helst bygðin. Fyrir neðan selið eru lækir nokkrir og gil, ill yfirferðar í vondum veðrum, og því gott að geta haft þarna náttstað. Það er því tvent, sem sjerstaklega mælir með þessari lánveitingu, nýbýlahugmyndin og að þetta verður sæluhús ferðamönnum, þegar þeim er slíkra húsa mest þörf. Jeg á t. d. eigi gott með að skilja, að hjer hefir verið kostað miklu til úr ríkissjóði til þess að rífa niður land og tæta sundur til undirbúnings nýbýlaræktinni — og mun þurfa að kosta þar miklu meira til með beinum framlögum úr ríkissjóði áður en að gagni komi eða þetta verði að framkvæmdum, — en svo þora menn ekki að veita þetta lán til nýbýlisgerðar gegn ágætistryggingu. Er það af því að þetta er á Vesturlandi ? Jeg ætla nú enn að vænta þess, að háttv. Nd. samþykki þetta, þó Ed. hafi lengi þreytt þennan gráa leik og virðist seinþreytt til vandræða.

Þá ætla jeg að fara nokkrum orðum um brtt. frá mjer og háttv. 1. þm. Reykv., (JakM) á þskj. 622, til þess að kaupa gagnhitunaráhald. Hafa oss borist í hendur meðmæli frá læknadeild háskóla Íslands og hljóða þau þannig:

„Vjer undirritaðir teljum mjög æskilegt, að útvegað sje sem fyrst hingað til Reykjavíkur áhald til svokallaðrar „diathermi“, sem að sjálfsögðu verður keypt þegar landsspítalinn tekur til starfa. Þangað til mundi það geta komið að góðum notum í lækningastofu Jóns læknis Kristjánssonar.

Reykjavík, 11/5 1923.

Jón Hj. Sigurðsson. Guðm. Thoroddsen Guðm. Hannesson. Sæm. Bjarnhjeðinsson.“

Þetta er rafmagnsáhald, sem framleiðir hita með háspennu og háfrequens (hátíðleik mætti nefna það á voru máli í gamansamri þýðingu). Er það til margra hluta nytsamlegt, og veit jeg, að það er mikið notað við lækningu á eyrum, augum, nefi og taugum og til að ylja frumlur í vöðvum mannlegs líkama. Mætti margt enn taka fram áhaldi þessu til lofs, en bæði er það, að jeg er ekki sjerfróður maður á þessu sviði, og svo þykist jeg mega vænta þess, að hv. þm. Str. (MP), sem er læknir, muni hlaupa undir bagga og taka það fram, sem mjer hefir sjerstaklega láðst að geta um. Og sýnt er það, að þetta áhald verður að kaupa, þegar landsspítalinn verður reistur, og er ekki gerandi að láta það bíða, til þess eins að spara vextina af því fje, sem til þess fer fyr eða síðar. Og þó hv. deild telji mig auðvitað engan speking í þessum efnum, þá er þess þó að vænta, að hún taki þá menn trúanlega, sem frumkvæði eiga að þessu, sem eru ýmsir bestu læknar bæjarins, og veit jeg líka, að hv. þm. Str. (MP) muni sýna, að jeg fer hjer ekki með fánýtt hjal.

Þá hafði jeg hugsað mjer að koma enn þá með tillögu um lánveitingu til Anderssons skradda, til að sauma landsforða af fatnaði úr íslenskum dúkum. Eins og menn vita, þá er þetta hvorki borið fram fyrir mitt kjördæmi sjerstaklega eða mig, heldur þykist jeg vita, að hjer er gott fyrirtæki á ferðinni og það sje besta leiðin til að bæta og tryggja ullarmarkaðinn og efla ullarverksmiðjurnar í landinu. Hefir mjer talist til, að það muni spara 1/2–1 milj. kr. á ári í erlendum gjaldeyri, þegar fyrirtækið er komið á fastan fót. Þeir einir geta greitt atkvæði á móti þessu, sem senda vilja ullina út óunna og kjósa fremur að hengja utan á sig erlenda, laust samanþrædda ómyndarfatnaði en ganga í haldgóðum og áferðarsnotrum íslenskum klæðum. Vona jeg því, að till. minni verði vel tekið og að hið háa Alþingi sýni enn þá, að það vilji hjálpa atvinnuvegum vorum.