12.05.1923
Sameinað þing: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

139. mál, fjáraukalög 1923

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 635, ásamt tveimur öðrum þm., um 3500 kr. styrk til þess að kaupa áhald það, sem við á íslensku höfum nefnt gagnvermi. Þetta var samþ. í Nd, en aftur felt í Ed. Jeg þarf því ekki að tala til hv. þm. úr Nd., sem höfðu skilning á þessu, heldur hinna. Eins og nafnið bendir á, er þetta áhald notað til þess að gagnhita ýmsa líkamshluta. Hafa áður verið notaðir bakstrar til þess, en þeir koma ekki aðeins miklu gagni og þetta áhald. Það er viðurkent, að það þurfi að fylgja landsspítalanum, en það vakir fyrir oss, að það verði keypt strax og ekki horft í rentutap, sem fram kemur við það, og svo verði það notað undir tilsjón þeirra manna, sem með kunna að fara. Þetta áhald er notað við liðagigt og ýmsum kvensjúkdómum, sem jeg hirði ekki um að nefna hjer. Í Ed. mættu kaup þessi aðallega móttspyrnu frá hv. 6. landsk. þm. (IHB). Hún tók þar að sjer það tvöfalda hlutverk, að knjesetja læknadeild háskólans og vinna á móti kynsystrum sínum, er sjerstaklega mundu hafa gagn af áhaldinu.