04.05.1923
Efri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

99. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Karl Einarsson):

Aldrei þessu vant hefi jeg skrifað langt nál. og er því ekki þörf á langri ræðu. Eins og sjest á upplýsingum í nál., hefir Leikfjelagið átt við þröngan kost að búa og við margskonar erfiðleika að stríða frá því það var stofnað. Leikendur hafa lítið borið úr býtum og haft mjög vond húsakynni og haft við ótrúlega örðugleika að búa. Nú hefir á síðustu árum keyrt úr hófi fram, svo að Leikfjelagið er við það að gefast upp. Jeg ætla ekki að fara mörgum orðum um það, hvernig Leikfjelaginu hafi tekist að sýna hjer góða leiklist: það mun öllum kunnugt, sem hjer eru. Þeir munu allir hafa átt kost á að njóta ánægju af að horfa á sjónleika hjer, en jafnframt fundið til óánægju yfir því að sitja í leikhúsinu. En það er ekki við betra að búast, þar sem fjárhagurinn er eðlilega mjög þröngur, þar sem hjer eru komin 2 kvikmyndahús, sem hafa sýningar á hverju kvöldi og miklu betri húsakynni. Og mörgum finst, að þeir fái þar þægilegri skemtun á einni klukkustund en þeir fá í leikhúsinu á þrem stundum í vondri vistarveru En verulegir smekkmenn í þessum efnum munu þó fljótlega finna mun á góðri leiklist og því, sem oftast er sýnt í kvikmyndahúsum. Nefndin hefir tekið fram í nál., að hún sje óánægð með það, að frv. er eigi nógu víðtækt, en hún hefir eigi treyst sjer til þess að breyta því í hið upprunalega horf, sem það var í í Nd., sökum þess, að nefndin var hrædd um að tefla málinu í hættu með því. En er Reykjavík hefir fengið leikhús, býst jeg við því, að þm. verði svo víðsýnir, að þeir láti hina kaupstaðina njóta skemtanaskattsins til þess að byggja leikhús við þeirra hæfi. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta.