03.05.1923
Neðri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

11. mál, fátækralög

Jón Þorláksson:

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð. Nefndin hefir fjallað um brtt. hv. þm. Str.(MP), og þar varð það ofan á, að vilja ekki raska þeim lagaákvæðum, sem nú gilda um þátttöku ríkissjóðs í kostnaði á framfærslu sjúkra þurfalinga. Því hefir verið hreyft áður hjer í deildinni, — jeg held það hafi verið hæstv atvrh., — að hlutfallið í þessari þátttöku ríkissjóðs væri óeðlilegt, er það er einskorðað við 4 þurfamenn úr hverju sveitarfjelagi, án tillits til fólksfjölda. Nú vildum við ekki breyta þessu, vegna þess að í ráði er að gera víðtækari breytingar á fátækralögunum, og vildum við því bíða átekta til næsta þings.

Viðvíkjandi niðurfærslu sveitfestistímans vil jeg taka það fram, úr því enginn þm. fyrir kaupstaðarkjördæmi hefir drepið á það, að jeg held, að aðalástæðan fyrir því að vilja ekki færa hann niður í 3–4 ár sje fólgin í því, að í kaupstöðum og sjóþorpum fari menn að amast við fólksflutningum þangað, ef þetta yrði úr, að hann yrði styttur svo mjög. Menn mundu óttast, að fólksstraumurinn úr sveitunum legðist of þungt á þá, sem fyrir eru í sjávarþorpunum, og gerði þeim mönnum þar erfiðara fyrir, sem berjast í bökkum, að bjarga sjer. Þetta álít jeg að væri ekki rjett, ef það kæmi fyrir, að hömlur yrðu lagðar á flutninga manna milli hjeraða, enda þótt það væri ef til vill hægt að gera það á löglegan hátt. Jeg álít, að það eigi ekki að stytta tímann meira í einu en svo, að sveitarfjelögin í raun og veru sætti sig við það, án þess að leita undanbragða til að skjóta sjer undan afleiðingunum.