23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

43. mál, vegir

Pjetur Ottesen:

Þar sem mjer þótti svo við horfa á fyrra stigi þessa máls, að það væri, miðað við þær undirtektir, sem það fjekk, líklegt til þess að ná fram að ganga, en flm. hafa hins vegar ekki komið fram með neinar tillögur um að fella þennan gamla veg úr þjóðvegatölu, en alls óviðeigandi að hafa þarna tvöfaldan þjóðveg, þá hefi jeg flutt hjer brtt. á þskj. 377, sem jeg hefi samið í samráði við vegamálastjóra. Þá er og síðan einnig komin fram samskonar brtt. frá háttv. þm. N.-Þ. (BSv), sem er einn af flm. þessa frv., og er hún aðeins frábrugðin minni till. í því, að samkvæmt henni fellur vegurinn frá Breiðamýri til Reykjahlíðar úr tölu þjóðvega, án þess að hann sje tekinn upp í sýsluvegatölu. Jeg hefi átt tal um þetta við vegamálastjóra, og hefir hann ekki fundið neitt við það að athuga og lýst yfir því, að hann gæti vel fallist á það, þar sem nú er verið að leggja sýsluveg samhliða þessum vegarkafla. Jeg tek því tillögu mína aftur.