24.03.1923
Neðri deild: 28. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (1902)

89. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg slepti að geta þess í ræðu minni áðan, að það hefir oft komið fram áður að taka til athugunar alla kjördæmaskipun landsins, og þál. í þá átt var samþykt á Alþingi 1920. En þó að slík endurskoðun kjördæmaskipunarinnar færi fram, þá vænti jeg ekki mikils árangurs í því efni; tillögur um þetta hafa mörgum sinnum verið til athugunar, en ekkert náð fram að ganga, sem bendi til þess, að þm. verði fækkað, enda hefi jeg fylsta vantraust á þess háttar breytingartilraunum. Geri heldur ekki ráð fyrir, að þær nái fram, vegna mótstöðu frá hálfu litlu kjördæmanna, sém eðlilega vilja ekki missa rjett sinn til þingsætisins. En þó að þetta frv. yrði að lögum, væri þar með ekki neitt ranglæti framið gagnvart neinum, og jeg býst ekki við, að neinar breytingar verði á um kjördæmaskiftinguna á næstunni. Hitt læt jeg mig engu skifta, til hvorrar nefndarinnar þessu frv. verður vísað, allsherjarnefndar eða stjórnarskrárnefndar.