05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (1950)

79. mál, aukauppbót vegna sérstakrar dýrtíðar

Jón Baldvinsson:

Það hefir verið talað um það, að ef brtt. háttv. meiri hl. nefndarinnar nái fram að ganga, þá verði af misrjetti ekki minna en nú er. Háttv. 3. þm. Reykv. (JJ) hefir svarað þessu til fulls og tekið það fram, að hjer sje aðeins verið að bæta úr stærsta misrjettinu. Jeg er sannfærður um, að t. d. mismunurinn á því að lifa á Eyrarbakka og hjer í Reykjavík er talsvert meiri en sem nemur þeim launamismun, sem yrði, ef frv. þetta næði fram að ganga. Hins vegar verð jeg að mótmæla því, sem hv. þm. (JÞ) sagði, að kaup verkamanna hjer sje svo mikill þáttur í dýrtíðinni hjá embættismönnum. Það mun ekki vera svo stór útgjaldaliður hjá embættismönnum, að það dragi þá nokkuð til eða frá. En ein aðalástæðan til þess, að laun þessara embættismanna hjer hrökkva ekki fyrir útgjöldum, er fyrst og fremst sú, að bankar og ríkisstjórn hafa komið sjer saman um að lækka svo mjög íslensku krónuna. Þetta er orsökin til þess, að þessir menn geta ekki komist af með það, sem þeim er ætlað. Af kaupstöðum mun dýrtíðin vera mest í Reykjavík og Ísafirði, og eftir því, sem jeg hefi heyrt, á Siglufirði. Og það mun sannarlega engin vanþörf vera á, að úr sje bætt.

Jeg fæ ekki orða bundist út af nál. háttv. minni hl., þar sem tekið er fram, að ekki væri úr vegi að veita einhvern styrk þeim embættismönnum, sem verst væru settir í þessu tilliti. Jeg kalla þetta niðrandi boð. Taka yrði hjer æfiferilsskýrslu af embættismönnum, til að sjá, hvernig hag þeirra sje komið. Raunar er þetta hið sama og verkamennirnir verða að sætta sig við, ef þeir geta ekki bjargast af eigin ramleik; en það verður ekki neitt betra fyrir því, þótt fleiri verði fyrir slíku ranglæti. Jeg lít svo á, að ríkið verði að borga starfsmönnum sínum svo mikið kaup, að þeir geti lifað af því. Ella er við búið, að þeir fari hver á fætur öðrum að segja sig úr þjónustu þess, og myndu þá fyrst fara þeir, sem nýtastir eru og best ættu með að sjá sjer farborða með öðrum hætti. Væri það illa farið og fyrirsjáanlegt, hvar enda myndi.

Jeg verð að líta svo á, að till. hv. meiri hl. sjeu mjög hógværar. Útgjaldaaukinn, sem af þeim leiðir, er ekki meiri en það, að ríkissjóðurinn ætti vel að geta risið undir. Finst mjer því, að háttv. Alþingi geti ekki sóma síns vegna verið á móti þessu máli.