14.04.1923
Efri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (1982)

36. mál, húsaleiga í kaupstöðum landsins

Jónas Jónsson:

Síðan þetta mál var hjer síðast til umræðu hafa orðið nokkrar breytingar, ekki hvað snertir aðstöðuna í bænum, heldur um afstöðu þings og bæjarstjórnar. Þegar frv. þetta var borið fram hjer á þinginu, var aðstaðan sú, að Reykjavík hafði húsaleigulög, sem voru ekki mikið notuð upp á síðkastið, en miðuðu að því að þrýsta húsaleigunni niður. Það virðist nú svo sem þau hafi haft lítil áhrif í þá átt, en það er ekki rjett, að þau hafi stefnt í gagnstæða átt, eins og sumir hafa haldið fram. Samt hafa húsaleigulög þessi ekki verið áhrifameiri en það, að alt fjárhagslíf bæjarins er orðið svo sjúkt og á það er komin slík ringulreið og ósamræmi, að ekki verður lengur við svo búið unað; og það er ekki síst að kenna því, hversu húsaleigan keyrir nú fram úr hófi. Það má segja,, að húsaleiga hjer og í öðrum kaupstöðum landsins, sjerstaklega á Ísafirði, sje á hápunkti sínum, eða sem næst því, er hún var hæst, eða miðuð við verðlag innanlands 1918 —1919, þegar verðið á íslenskum afurðum var sem hæst og peningastraumurinn var mestur inn í landið. Síðan hafa afurðir fallið í verði, atvinnuvegirnir hafa orðið að draga saman seglin, kaupgjald verkamanna lækkað stórkostlega, sömuleiðis embættislaun, með lækkun dýrtíðaruppbótarinnar. En húsaleigan stendur í stað. Embættismenn ríkisins, þeir sem þurfa að leigja sjer húsnæði, verða því mjög hart úti. Jeg held að mjer sje óhætt að fullyrða, að hjá sumum starfsmönnum landsins hjer í bænum sje neyðarástand. Þeir verða að greiða alt að því helming launa sinna eingöngu í húsaleigu.

Í Nd. kom nýlega til umræðu, hvort hækka skyldi dýrtíðaruppbót embættismanna hjer, til þess að þeir gætu staðið straum af húsleiguokrinu. Þá held jeg, að mjer hafi ekki missýnst, að fyrverandi fjármálaráðherra gekk inn á, að embættismenn í Reykjavík fengju sjerstakan húsaleigustyrk vegna erfiðleika þeirra, er þeir ættu við að búa. Jeg er honum samdóma að því leyti, að það veitti ekki af, en aðferðina, sem hann vildi beita til að bæta kjör þeirra, tel jeg ekki heppilega. Vegna þess, hvað húsaleigan er há í Reykjavík, helst dýrtíðin við, því að ómögulegt er að lækka vinnulaunin nema lítið eitt, þótt þess þyrfti með sakir verðfalls afurðanna. Jeg hefi heyrt, að þetta hafi haft áhrif á atkv. eins hinna stæltustu vinnurekenda í bænum á fundi, er þeir hjeldu með sjer. Jeg þarf ekki að taka það fram — jeg mintist á það við 1. umr. — hver áhrif þetta leiguokur hefir á aðstæður foreldra þeirra ungmenna, sem þeir kosta til náms hjer. Þó má minna á það, að upp og niður má gera ráð fyrir, að húsaleigan sje um 400 kr. fyrir eitt herbergi handa námsmanni vetrarlangt. Er þetta sama og að gleypa alt sumarkaup hraustra og efnalítilla manna upp í húsaleiguna einvörðungu. Áður fyr þótti það ekki ókleift fyrir fullhrausta menn að kljúfa námið með sumarkaupi og þeim styrk, sem þeir fengu við skólann. Nú fer meiri parturinn af því fje, og jafnvel það alt, upp í húsaleiguna eina saman.

Þegar málið var tekið af dagskrá á dögunum, þá lá dagskrá fyrir um að vísa málinu frá vegna þess, að bæjarstjórnin, væri að taka málið til athugunar. Nefndin áleit fulla ástæðu til að treysta bæjarstjórninni. En einn maður úr allshn. gat þess þó við 1. umr., að ef bæjarstjórnin gerði ekkert í þessu máli, þá fyndist honum rjett, að stjórnin gæfi út bráðabirgðalög til að ráða bót á þessu þjóðfjelagsböli. Jeg var dálítið kunnugur því, hvernig bæjarstjórnin leit á þetta mál, og mjer kom það enganveginn á óvart, þótt hún feldi allar tilraunir til þess að skifta sjer af þessu máli. Leigjendurnir eru vafalaust efnaminni mennirnir, og eiga því erfiðara aðstöðu að þrýsta fram sinni skoðun, en húseigendur hafa hins vegar myndað með sjer harðsnúinn fjelagsskap, sem beitir sjer fyrir því, að engin takmörkun verði gerð á húsaleigunni, eða þá svo lítil sem unt er.

Í bæjarstjórninni eru og flokkar. Íhaldsflokkurinn er þar í meiri hluta, en hann er svo skipaður, að flestir í honum eru húseigendur og meðal annars einn maður, sem býr í húsi, sem kostaði 350 þús. krónur, svo að ekki er þess að vænta, að sá flokkur vilji fella húsin í verði á þennan hátt. Þá er og verkamannaflokkur í bæjarstjórninni, og svo milliflokur, 2 eða 3 menn, sem á útlendu máli munu vera kallaðir „radikalar“. Stefnan var nú þannig í bæjarstjórninni, að Íhaldsflokkurinn vildi ekkert gera, en verkamannaflokkurinn vildi koma á mati, er miðað væri við það, hvað nú kostaði að byggja hús. En nú vita menn, að hús, sem bygt er um aldamót og kostaði þá t. d. 5000 kr., er nú orðið 20 þús. kr. virði. En af því leiðir, að maður, sem á hús, er upprunalega hefir kostað 5 þús. krónur, fær eftir þessu rjett til að leigja það út eins og það hefði kostað 20 þús. kr. Með öðrum orðum, þessi breyting var alveg gagnslaus. Því var þá þannig varið með báða aðalflokkana, að annar vildi ekkert gera og hinn sama sem ekkert. Það var líka auðsjeð, að það var ekki langt á milli. Borgarstjórinn, sem er aðalmaðurinn í Íhaldsflokknum, fylgdi verkamönnum í þessu máli. Þeir fóru svo hægt, að hann gat yfirgefið sinn flokk. Þá voru ekki eftir aðrir en milliflokksmennirnir, sem voru tveir læknar. Þeir tóku upp aðalstefnu þá, sem felst í þessu frv. Þeir álita nauðsynlegt að lækka húsaleiguna mikið og álitu ekki gagn að öðru en mati. En þeim þótti 12% of lágt. Þeir álitu ekki um annað en fasteignamat að gera, en aðeins spurning um hundraðsgjaldið. Á úrslitafundinum um þetta í bæjarstjórninni komu þessir tveir menn því með tillögu um það, að gerð skyldi reglugerð fyrir bæinn, bygð á fasteignamatihu, en sú tillaga var feld af tveim aðalflokkunum. Þó var einn maður úr Íhaldsflokknum með læknunum í þessu máli, maður, sem mun hafa verið einn af aðalstuðningsmönnum hv. 4. landsk. þm. (JM) í sumar, Jón Ólafsson framkvæmdarstjóri. Jeg get þessa, til að sýna, að í liði form. allshn. eru þó til menn, sem vilja, að húsaleigan lækki. Þessi maður er einn af stærstu atvinnurekendum í bænum og mun hafa sjeð, hver þröskuldur húsáleigan er fyrir atvinnulíf landsins. Eftir að stóru flokkarnir höfðu felt þessa tillögu, dó málið skaplega, því að tillagan um mat, miðað við kostnaðarverð, var líka feld, svo nú liggur ekkert fyrir um málið hjá bæjarstjórninni.

Jeg býst við, að nú verði skorið úr því, hvort deildin telur rjett að láta frv. ganga til 3. umr. og fá nauðsynlegar breytingar, t. d. um það, hvernig húseigendur geti losað hús sin. Þótt jeg þykist vita, að deildarmenn sjeu fyrirfram ákveðnir, hvernig þeir greiða atkvæði, og þýði ei að reyna að sannfæra þá, þykir mjer hlýða að færa fram nokkur rök gegn því að vísa málinu nú til bæjarstjórnar.

Það er þá fyrst, að aðrir kaupstaðir en Reykjavík þurfa að lækka hjá sjer húsaleigu. Í öðru lagi getur bæjarstjórnin ekki litið óhlutdrægt á þetta mál, og í þriðja lagi hefir það sýnt sig, að bæjarstjórnin vill ekkert gera í þessu máli, eða það, sem hún vill gera, er einskisvirði. Í fjórða lagi má telja, að bæjarstjórnin álíti sér misboðið með því að ætlast til að hún fari á ný að hringla í máli, sem hún er nýbúin að fella. Það er bannað í þingsköpum Alþingis að taka upp mál á sama þinginu, sem búið er að fella. Þó þess sje nú ekki getið í regulgerð bæjarstjórnarinnar, mun reglan vera sú, að hún tekur ógjarna upp, sama árið, mál, sem einu sinni er búið að fella. En aðalatriðið er þó það, að það hefir sýnt sig, að bæjarstjórnin vill ekki lækka húsaleiguna, og að vísa málinu til hennar er sama og drepa það alveg. Skal jeg svo ekki fjölyrða meir um þetta að svo stöddu.