14.04.1923
Efri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (1983)

36. mál, húsaleiga í kaupstöðum landsins

Frsm. (Jón Magnússon):

Okkur hv. flm. (JJ) greinir ekki svo mikið á um það, að húsaleigan sje of há. Jeg býst við, að flestir viðurkenni það, að hún sje óhæfilega há í mörgum tilfellum. Grundvallaratriðið fyrir mjer og okkur í allshn. er það, að við teljum þetta bæjarmál, og jeg hefi ekki annars heyrt það efað, að svo sje. Því bærinn á heimting á að skipa málum sínum, enda er slíkt boðið í stjórnarskránni. Sú leið, sem nefndin leggur til, að farin verði, er hin almenna. Hitt er auðvitað, að það getur haft þýðingu fyrir landið, hvernig þessu máli er skipað, en hjá því verður ekki komist, að þetta er bæjarmál og heyrir undir bæjarstjórnina. Ef þetta frv., sem hjer er á ferðinni, næði fram að ganga, yrði það til þess, eins og hv. flm. viðurkendi, að húseignir lækkuðu í verði, ekki frá því, sem þær voru, er þær stóðu sem hæst, heldur frá því, sem kosta mundi að byggja nú. Háttv. flm. hjelt því fram, að það munaði ekki miklu fyrir bæinn, því að flest hús í bænum hefðu verið bygð áður en verðhækkunin átti sjer stað. En svo er ekki. Eftir því sem borgarstjóri hefir skýrt mjer frá, voru bygð og virt til brunabóta í Reykjavík 64 hús árið 1919, virðingarverð um 14000000 kr., 137 hús árið 1920, virðingarverð um 4100000 kr., 155 hús árið 1921, virðingarverð um 4000000 kr., 117 hús árið 1922, virðingarverð um 1800000 kr., og 29 á þessu ári, virðingarverð um 600000. Virðingarverð er talið eins og það er nú, eftir síðustu virðingu, en ekki eins og það var, er húsin voru bygð, og byggingarkostnaður hefir því verið meiri. Alls er brunabótavirðingin á framangreindum húsum tæpar 12 miljónir, en allar húseignir bæjarins virtar nú nálega 47 milj. króna. Þannig nemur virðingarverð framantaldra nýbygðra húsa rúmum 4 allra húseignanna.

Þá er þess að gæta, að fasteignamatið er mjög lágt, borið saman við brunabótavirðingarnar. Brunabótavirðingarnar eru hjer um bil 47 miljónir, en fasteignamatið 23 miljónir. Það er því auðvitað, ef taka á ákveðið hundraðsgjald, þá verður að fara hátt frá fasteignamatinu, því ósagt er, að það verði nokkurn tíma svo lágt virt sem fasteignamatið. Ef hundraðsgjaldið er tekið sanngjarnt, þá getur það orðið tvíeggjað sverð. Það gæti orðið til þess, að húsaleigan hækkaði yfirleitt.

Það er vitanlegt, ef húsaleiga lækkar að miklum mun, niður fyrir það verð, er nýbygð hús kosta, þá dregur það úr byggingum í bænum. Háttv. flm. gat þess, að með því væri lítill skaði skeður; þá flyktust menn ekki svo mjög til bæjarins og þá yrði atvinnan meiri tiltölulega. En það verður að taka tillit til þeirra, sem hjer eru nú. Húsnæðisvandræðin eru afskapleg; hjer er hrúgað svo saman sumstaðar, að því trúa ekki aðrir en þeir, sem sjá. Það er rjett hjá hv. flm., að húsaleigan er nú ekki mikið lægri en þegar hún var hæst. Kvað hann leiða af því, að ýmsir embættismenn yrðu hart úti, og yrði því að hækka við þá dýrtíðaruppbót sökum þess. En jeg hygg, að embættismenn eigi margir húsin, sem þeir búa í.

Þá hefir verið talað um það, að verkakaup lækki, ef húsaleigan lækkar. En jeg verð að efast um það. Það er margt fleira, sem hjer er dýrt en húsaleigan, sem hefir áhrif á verkakaupið. Jeg hygg, að það yrði ekki mikil breyting á því, þótt húsaleigan lækkaði.

Háttv. flm. talaði um verðlag á kjöti og fiski. Það er hjer hærra en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu. Svona er það og verður, af skiljanlegum ástæðum. Jeg skal viðurkenna, að húsaleigumálið er vandræðamál, og það er rjett hjá hv. flm., að það mun ekki vera hægt að fá sæmilegt herbergi fyrir minna en 40–50 kr. á mánuði. En ágreiningurinn er þessi: Jeg stend fast á því, að þetta sje bæjarmál, og ríkisvaldinu sje ekki rjett að svifta bæinn valdi til þess að skipa málum sínum. Mjer er óskiljanlegt, að þetta sje fremur landsmál en svo mörg önnur mál. Jeg hefi áður nefnt hjer annað mál, höfnina í Reykjavík, sem er tvímælalaust bæjarmál, þótt hún hafi mikla þýðingu fyrir land alt. Svona mætti lengi telja.

Engar umkvartanir hafa heyrst frá Ísafirði. Þar er líka há húsaleiga. Er þá og heldur ekki vert fyrir þingið að vera að skifta sjer af þeim, því auðvitað fengju þeir heimildarlög, ef þeir óskuðu þess.

Þá talaði hv. 5. landsk. þm. (JJ) um, að bæjarstjórn Reykjavíkur væri misboðið með því að ætlast til, að hún taki þetta mál upp aftur. Jeg sje nú ekki, að svo sje. Að minsta kosti telur Alþingi sjer það vel sæma að gera slíkt. T. d. er mál fyrir þinginu nú, sem hefir verið 4 eða 5 sinnum áður og tekið upp hvað eftir annað. Jeg met því þessa ástæðu ekki mikils.

Jeg held, að mælikvarði sá, sem að minsta kosti hluti bæjarstjórnarinnar leggur til grundvallar í þessu máli, eða núverandi byggingarverð, sje eðlilegur frá bæjarstjórnarinnar sjónarmiði, því þeirra krafa er, að bygt verði, svo menn geti fengið sæmilegar íbúðir. Jeg sje ekki, hvað það kemur málinu við, þó sumir þeir, sem hafa stutt mig við kosningar, sjeu á annari skoðun en jeg.

Háttv. þm. (JJ) talaði um, að erfitt væri að fá gamla lögfræðinga til að falla frá sínum föstu skoðunum. En hann þarf ekki að undra, þótt jeg fylgi þeirri stefnu í þessu máli, sem hefir ríkt fram á þetta þing.

Þá sagði háttv. þm. (JJ), að húsaleigulögin fjellu burt næsta vor. En þetta er ekki rjett, það eru aðeins heimildarlögin, sem falla úr gildi í sumar, en húsaleigulögin standa til 1924, í framkvæmd til 1. okt. þess árs, en innan þess tíma kemur Alþingi aftur saman.

En bæjarstjórn sýnist mjer ekki ætti að þurfa mikið meira en 2 ár til að hugsa um reglugerðina.