04.04.1923
Efri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (2028)

73. mál, bifreiðaskattur

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg skal leyfa mjer að fara nokkrum orðum um frv. þetta, til viðbótar því, er tekið er fram í nefndarálitinu.

Lögin um bifreiðaskattinn eru enn ekki orðin 2 ára gömul; skatturinn hefir aðeins einu sinni verið greiddur samkvæmt þeim. Því má segja, að reynslan sje enn eigi orðin löng.

Það hefir verið kvartað undan þessum lögum af hálfu bileigendanna. En það er nú ekkert óvanalegt, að kvartað sje undan gjöldum af hálfu þeirra, sem eiga að greiða þau, einkum ef þeir eru nálægir þessum stað.

Við 1. umr. var vitnað í skjal frá bílaeigendum. Jeg hefi nú athugað það. Af því má sjá, að síðan lögin gengu í gildi, hefir bílataxtinn lækkað mikið, eða um 20%. Get jeg ekki dregið aðra ályktun af því en þá, að bifreiðarnar sjeu orðnar of margar. Samkepnin sje svo mikil, að bifreiðataxtinn hafi verið lækkaður, og verði máske lækkaður enn. En þetta er bara af því, að bílarnir eru orðnir of margir, samanborið við flutningaþörfina. Þetta sannar því ekki, að skatturinn sje of hár.

Þá hefir enn fremur verið sagt, að það væri órjettlátt, að fólksflutningabílar greiddu 8 kr. af hestorku, en vöruflutningabílar aðeins 2 kr. af hestorku, þar sem vörubílarnir væru einatt notaðir til mannflutninga. En jeg sje nú ekki, að þetta sje nein ástæða. Mjer virðast lögin segja það skýrt, að þær bifreiðar, sem notaðar eru til mannflutninga, teljist líka til þess flokks. Þannig mundi og fara með þær vöruflutningabifreiðar, sem breytt er í mannflutningabifreiðar.

Jeg ætla aðeins að minnast lítils háttar á þessar breytingar, sem 2 háttv. deildarmenn hafa komið með. Fjárhagsnefnd hefir nú haft þær til meðferðar, og höfum við ekki sjeð okkur fært að taka þær til greina. Lögin eru þannig úr garði gerð, að okkur hefir ekki fundist ástæða til slíkra breytinga. Nefndin leggur mest upp úr því, eins og deildin vonandi líka, að gjaldið virðist ekki mjög tilfinnanlegt og kemur beinlínis bifreiðaeigendum að notum, þar sem því fje er varið til vegagerða og umbóta á vegum fyrir bifreiðar.

En ef vegum, sem bifreiðar fara um, er ekki haldið við, mundu þeir bráðlega verða illfarandi og skemdir á bifreiðum tíðar og miklar. Ef, aftur á móti, þeim væri fljótlega komið í lag, þá myndi verða mun minna um skemdir og bílarnir endast miklu lengur.

Það hefir ekki enn þá verið sannað, að það sjeu ekki einmitt bifreiðarnar, sem skemma vegina allramest; og þá væri ekki nema ósköp sanngjörn krafa, að eigendur þeirra legðu eitthvað af mörkum sjerstaklega, til þess að halda þeim við. En mönnum er nú svo gjarnt að fjölyrða um mál hjer í þinginu, að jeg ætla að ljúka máli mínu, enda býst jeg við, að aðra langi til að fá orðið. Jeg vil bara leyfa mjer fyrir hönd fjhn. að leggja til, að brtt., ásamt frv., sjeu feldar.