09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (2051)

123. mál, skipun prestakalla

Flm. (Björn Kristjánsson):

Jeg vildi aðeins leyfa mjer að segja nokkur orð út af því, sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) sagði, að um 3000 messuföll hefðu verið á landinu síðastliðið ár. Álít jeg eigi, að það stafi af því, að áhugi fólks fyrir trúmálum eða kirkjurækni sje minni nú en áður, eins og hv. 5. landsk. þm. hjelt fram, heldur af því, hversu örðugleikarnir við að sækja kirkju hafa vaxið við það, að prestaköll hafa stækkað, t. d. eru nú dæmi þess, að einn prestur þjóni 7 kirkjum. Geta þeir menn, sem eru gamlir og þreyttir, eigi lagt það á sig að fara langar leiðir til kirkju og setjast þar inn sveittir, og það ef til vill í köldum kirkjum. Er jeg alveg sammála hv. 4. landsk. þm. (JM) um það, að það hefir sýnt sig, að menn finna nú meira til þarfarinnar á því að sækja kirkju og að hugsa um andleg mál yfirleitt en fyrir nokkrum árum. Geri jeg ráð fyrir, að söfnuður sá, er hjer á hlut að máli, hugsi mikið um að sækja kirkju. Annars ætla jeg mjer ekki að fara að pexa út af þessu. Jeg vildi aðeins taka það fram, að það er vitanlega ekki nema gott og lofsvert að spara, en ef spámaðurinn gengur svo langt, að alt kirkjulíf deyi út með þjóðinni, þá verð jeg að telja þann sparnað til óheilla.