05.03.1923
Efri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

2. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Frv. þetta kom fyrst fyrir Alþingi 1921. Var það samið af vegamálastjóra, eftir kröfu Alþingis, með það fyrir augum að útvega sýslunum tekjustofn til vegagerða, þar sem þeim veitist mjög örðugt að standa straum af útgjöldum þeim, er vegagerð hefir í för með sjer. Voru samþyktar þál.till. 1915 og 1919 í þessa átt. En frv. var samið of seint til þess, að það gæti komið fram sem stjfrv., og tók því samgmn. Nd. að sjer að flytja það, þó með þeim 2 breytingum, að tekið væri upp í frv. ákvæði um greiðslu á endurláni, miðað við Gullbringu-og Kjósarsýslu og Árnessýslu, og að frv. þetta yrði samræmt lögum frá 11. júlí 1911, þar sem verslunarstaðir eru undanþegnir þessu gjaldi. Gekk nefndin þó ekki eins langt. Með þessum breytingum fór frv. til Ed. og var þar ákveðið að vísa frv. til stjórnarinnar og henni bent á ýmsar breytingar á því. Stjórnin hefir nú tekið flestar till. nefndarinnar til greina í frv. þessu, sem hjer liggur fyrir. Samgmn. Ed. hefir nú athugað frv. þetta og getur fallist á það mið 3 smábreytingum.

Nefndin álítur, að of langt sje gengið í 6. gr. stjfrv., að undantaka eyjajarðir algerlega frá öllum gjöldum til vegakerfis þeirrar sýslu, sem þær heyra til, en álítur hins vegar rjett að heimila sýslunefndum að ívilna kauptúnum í gjaldi þessu, sjeu þau hreppsfjelag út af fyrir sig, þar sem þau hafa alment ekki eins mikil not af sýsluvegunum.

Nefndinni þykir lækkun stjfrv. á skattinum, þar til ríkistillag byrjar, ekki nægileg, og leggur því til, að tölurnar í 8 gr. lækki um nema talan 6%. Mun útgjaldaauki ríkissjóðs af breytingu þessari eigi verða svo mikill, þegar þess er gætt, að ekki munu nærri öll sýslufjelög leggja svo mikið til vega, að þau nái í ríkissjóðstillagið, en þau, sem mikið leggja til vega, mundi muna mikið um þetta. Ef gert væri ráð fyrir, að um helmingur sýslufjelaganna næði í ríkissjóðstillag, mundi þessi lækkun á tölunum kosta ríkissjóð um 10–12 þús. krónur.

Árið 1921 hefir vegamálastjóri áætlað framlag sýslnanna næstu ár miklu hærri. — alt að 5-falt sumstaðar við það, sem áður hefir verið, — og myndi það kosta ríkissjóð 23 þús. kr. eftir hans frv. En jeg hygg, að það muni þurfa nálega 50 þús. krónur úr ríkissjóði með þeirri breytingu, er nú hefir verið gerð á frv. Ríkissjóður leggur nú til vegagerðar um 60 þús kr., að vísu með öðrum skilmálum. Sá útgjaldaliður fjelli niður, og því væri eigi um aukin útgjöld að ræða. Jeg álít frv. mjög aðgengilegt. Her er aðeins um heimildarlög að ræða. En jeg er eigi allskostar ánægður með að sleppa algerlega lausa- og vinnumönnum við skatt, en nefndin hefir eigi treyst sjer til að koma með neina breytingu í þá átt.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að leggja það til, að deildin samþykki frv. þetta með breytingum nefndarinnar.