30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (2159)

149. mál, löggiltir endurskoðendur

Þorsteinn Jónsson:

Jeg skal nú ekki verða langorður. Hv. þm. Dala. (BJ) segir, að sjer hafi ekki dottið Hallgrímur Kristinsson í hug. Heldur hv. þm., að hann geti talið öðrum trú um, að það hafi verið einhverjir aðrir en Hallgrímur Kristinsson, sem rjeðu mestu um þær ávirðingar, sem hann kallar svo, hjá Sambandinu, t. d. lóðakaupunum húsbyggingunni, skólastofnuninni og ráðningu skólastjórans? Dettur hv. þm. (BJ) það í hug í fullri alvöru, að nokkur maður trúi því, að forstjórinn hafi ekki ráðið mestu um þessi verk? Það er stærsta árásin, sem komið hefir fram í garð fyrv. forstjóra, að hann hafi látið aðra ráða gerðum sínum um framkvæmdir Sambandsins, og meira last en áður hefir verið um hann sagt, að ætla að ræna hann þannig heiðrinum af skörungsskap sínum og sjereinkennum. Það, sem þessi hv. þm. (BJ) hefir hjer vítt hann fyrir, eru ekki ávirðingar, heldur ein stærstu framfaraspor samvinnustefnunnar hjer á landi.

Jeg hefi nú fengið upplýsingar um utanfararkostnað skólastjórans, og hv. þm. (BJ) hefir tvöfaldað upphæðina; hún var 3000 kr., en ekki 6000. (BJ: En fyrir hina ferðina?). Þar var ekki svipað því um 3000 krónur að ræða. Hjer er því um nákvæmlega sömu aðferð að ræða hjá hv. þm. (BJ) eins og höfundi „Verslunarólagsins“ síðastl. haust, þar sem eingöngu var veist að Sambandinu.

Hv. þm. (BJ) flytur frv. um löggilta endurskoðun og rökræðir það, en bendir svo aðeins á Sambandið, sem dæmi um varhugaverða reikningsfærslu og fjármeðferð.

Tveir háttv. alþingismenn, sem eiga sæti sinn í hvorri deild Alþingis, hafa nú beint árásum að þessari stofnun, Sambandinu og forstöðumönnum þess. En sá er munurinn, að annar ræðst á framkvæmdir látins manns og notar sjer þinghelgina, þar sem ekki er hægt að lögsækja hann fyrir orð hans, en hinn gerði það þó að honum lifandi og á þeim vettvangi, þar sem hægt var að lögsækja hann.