28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (2231)

88. mál, menntaskóli Norður og Austurlands

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Jónsson):

Eins og menn sjá af því, sem fram er komið í þessu máli, þá hefir nefndin ekki borið gæfu til að eiga samleið í því. Við erum aðeins 2 í nefndinni, sem teljum heppilegast, að málið nái fram að ganga. Fanst okkur ekki ástæða til að gera neinar brtt. við frv., ekki þó af því, að ekki gæti komið til mála að breyta einstöku atriði, heldur af hinu, að við vildum ekki með því eiga á hættu að koma ruglingi á málið og ef til vill seinka því.

Menn hafa nú hlýtt á rök háttv. frsm. meiri hl. (SSt) í málinu, og vil jeg nú fara nokkrum orðum um það, sem hann hafði fram að færa.

Háttv. þm. (SSt) segir, að þetta sje aðeins metnaðarmál Norðlendinga. Jeg vil þá spyrja hv. þm., hvort það var aðeins metnaðarmál Norðlendinga, að Hólaskóli hinn forni var stofnaður, eða þótt svo hefði verið, hvort stofnun þess skóla hafi ekki orðið allri þjóðinni til góðs. Jeg býst við, að enginn þori að neita því, að hefði Hólaskóli aldrei verið, þá væri hætt við, að margur mentamaðurinn hefði aldrei orðið það, sem hann varð, að margt þrekvirkið, sem kastað hefir ljósi inn í líf þjóðarinnar, væri óunnið enn. Ef Hólaskóli hefði aldrei verið, þá er ekki víst, að menn eins og Jón biskup Arason hefðu markað þau spor í sögu okkar, sem raun varð á. (JAJ: Var Jón Arason nokkurntíma nemandi á Hólum?). Jón Arason stundaði nám aðallega á Munkaþverá, en mentaðist auk þess mikið á Hólum, er hann var með Gottskálki biskupi Nikulássyni hinum grimma. Mætti nefna ýmsa fleiri afreksmenn, sem hlotið hafa þroska sinn á Hólum og síðar unnið þjóðinni ómetanlegt gagn og orðið forvígismenn hennar.

Ein mótbára hv. meiri hl. gegn frv. er óttinn við, að stúdentaframleiðslan aukist svo mjög við þetta. Segja þeir, að hún sje þó ærin fyrir, þótt ekki sje farið að gera sjerstakar ráðstafanir til að auka hana. En þá er að líta á það, hverjir þeir verða, þessir stúdentar, sem bætast í hópinn vegna þessarar skólastofnunar. Verða það synir eða dætur Reykvíkinga eða ríkra manna, sem mörgum er þrýst til náms af metnaði foreldranna, fremur en af lærdómslöngun? Verða það götudrengir og stúlkur, sem foreldrarnir af tvennu illu kjósa fremur að hafa á skólabekkjum mentaskólans en í solli götulífsins? Nei, það verða ekki slíkir nemendur, sem þessi nýja stofnun ryður braut til mentanna. Þeir, sem í hópinn bætast fyrir tilstilli þessara laga, verða aðallega utan úr sveit, menn, sem eiga enga ríka aðstandendur og hafa ekki annað að bjargast við en áhuga og dugnað sjálfra sín. Það eru þessir menn, sem þegar í æsku verða að læra að treysta sjálfum sjer í lífsbráttunni, sem bætast í stúdentahópinn. Nú vil jeg spyrja hv. þdm., hvort þeir sjái nokkuð athugavert við það, að þessir menn gangi lærða veginn. Eða vilja menn ef til vill halda því fram, að alt efnilegasta fólk landsins sje saman komið í Reykjavík og nágrenni hennar? Ef svo væri, þá væri sannarlega ekkert við því að segja, þótt frv. þetta væri felt. En sje nú ekki svo, hví skyldu menn þá ekki vilja unna öðrum landshlutum jafns rjettar við Reykjavík og hennar nágrenni?

Það er í þessu ljósi fyrst og fremst, sem jeg skoða þetta mál, og í þessu ljósi á það að skoðast. Þeir, sem fella vilja frv. þetta, það eru þeir, sem vilja láta Reykvíkinga eina ganga lærða veginn, en hver treystist til þess að sýna fram á það með rökum, að þetta muni heppilegast mentalífi þjóðarinnar? Hv. frsm. meiri hl. (SSt) sagði að vísu áðan, 30 að ekki bæri á því, að þeir væru ekki nógu margir, sem gengju lærða veginn. Kvað hann þetta sýnishorn þess, að ekki væri svo mjög erfitt að stunda nám hjer í Reykjavík. En hefir hann athugað, hvaðan þetta námsfólk er flest? Meiri hlutinn er einmitt úr sjálfri Reykjavík. Auk þess mun svo vera, að margir nemendur utan af landi, sem eru að ljúka námi nú, komu í skólann þegar dýrtíðin var minni, og er ekki sagt, hve margir þeirra hefðu treyst sjer til framhaldsnáms, ef eins hefði staðið á þá og nú. Að minsta kosti hafa sumir þessara manna sagt mjer, að þeir myndu aldrei hafa farið út á þessa braut, ef þeir hefðu í byrjun vitað, hve örðugleikarnir væru miklir. En hjer er þá einmitt oft um að ræða efnilegustu nemendurna, þá sem síðar munu verða hinir leiðandi menn þjóðarinnar. Það eina, seni vinst því með því að fella þetta frv., er það, að þeir kunna að verða eitthvað færri, liðljettingarnir, sem undir verða í lífsbaráttunni af svo kölluðum lærðum mönnum. Það mundi fleirum af þeim takast að ná í lífvænlegar stöður fyrir það, að bandað var á móti mönnunum, sem ella hefðu orðið ofjarlar þeirra.

Jeg vonast til þess, að hv. þdm. verði nú flestir sammála um það, að það muni ekki nein bót fyrir þetta þjóðfjelag, þótt Reykjavík fái einokunarrjett að framleiða stúdenta. (MP: En því þá ekki líka að krefjast háskóla fyrir Norðurland?). Það er miklu auðveldara fyrir fátæka menn að brjótast í gegnum háskólann heldur en mentaskólann. Fá þeir bæði meiri styrk, og auk þess eykst lánstraust þeirra eftir því sem nær færist embættisprófi. Verður hv. þm. Str. (MP) að leita að betri rökum, ef hann vill hnekkja þessu máli, en að á eftir muni koma fram krafa frá Norðlendingum um annan háskóla.

Þá talaði hv. frsm. meiri hl. (SSt) um það, að Norðlendingar myndu kunna því illa, að svo mörgum yrði synjað upptöku í skólann, sem raun myndi á verða. Jeg veit ekki betur en að þetta hafi lengst af verið svo allan þanntíma, sem gagnfræðaskólinn er búinn að starfa. Að minsta kosti var það svo meðan skólinn starfaði undir gömlu reglugerðinni, með nafninu Möðruvallaskóli, að helmingi þeirra, er sóttu árlega, varð sökum rúmleysis að neita um inntöku. Auk þess er nú uppi sú alda í þinginu að fjölga alþýðuskólum, sem í rauninni eru ekki annað en gagnfræðaskólar. Hefir hv. Nd. nú einmitt veitt fje til byggingar einum slíkum alþýðuskóla í pingeyjarsýslum, að eins eina dagleið frá Akureyri. Sje jeg ekki betur en þeir, sem eingöngu vilja fá gagnfræðamentun, geti eins vel sótt hana þangað eins og til Akureyrar. Nokkru sunnar er svo Eiðaskólinn, sem er líka í raun og veru gagnfræðaskóli. Á jeg því bágt með að sjá þá nauðsyn, að Akureyrarskólinn þurfi að vera svo sjerlega stór sem gagnfræðaskóli. Nokkuð öðru máli er náttúrlega að gegna um Rvík, sem er svo miklu fólksfleiri.

Hv. frsm. meiri hl. (SSt) kvað ekki dýrara sökum ferðakostnaðar að sækja skóla hingað, frá mörgum stöðum landsins, en til Akureyrar. Jeg skal játa, að svo er t. d. um nærsveitamenn Reykjavíkur, en öðru máli er að gegna um Norðlendinga og Austfirðinga. Er þetta annars svo einfalt atriði í málinu, að ekki ætti að þurfa að eyða orðum að því.

Þá bar háttv. frsm. meiri hl. (SSt) brigður á, að nokkru munaði, hve dýrara væri að stunda nám hjer í Reykjavík en á Akureyri. Við 1. umr. kom jeg með nokkrar tölur til samanburðar í þessu efni. Voru þær þá ekki hraktar af neinum, og þær hafa ekki verið hraktar enn. Tel jeg því óþarft að taka þær upp að nýju. En jeg fæ þó ekki varist að láta undrun mína í ljós yfir því, að hv. frsm. meiri hl. (SSt) skuli ekki vita, að innlendar afurðir eru yfirleitt um 50% dýrari hjer en þar nyrðra, og munar þó á sumum þeirra enn meira. (JAJ: Hvaða afurðir eru það?) Mjólk, t. d., sem háttv. spyrjanda ætti að vera kunnugt um, að kostar hjer alt að helmingi meira en á Norðurlandi. Furðar mig yfirleitt á því, að til skuli vera þm., sem svo ókunnugir eru ástandinu í hinum ýmsu hlutum landsins.

Hv. frsm. meiri hl. (SSt) sagði, að allir landsmenn ættu að eiga jafnan rjett til að nota skólana. Þar er jeg honum einmitt fyllilega samdóma. Og að mínu áliti ber að gera alt sem unt er til þess, að svo geti orðið. Það á að fara eftir hæfileikum mannsins, hvort hann gengur lærða veginn eða ekki, en eigi hinu, hvort hann er fæddur á Norðurlandi eða Suðurlandi, eða því, hvort hann er kominn af efnuðum foreldrum eða fátækum. En úr því að þetta er hugsjón hv. þm. (SSt), þá fæ jeg ekki skilið það gæfuleysi hans að vera eins og dæmdur til að berjast á móti framkvæmd hennar. Væri vonandi, að hann losnaði úr þeim leiðu álögum fyr en síðar.

Hv. frsm. meiri hl. (SSt) sagði, að ef stofnuð yrði lærdómsdeild á Akureyri, þá yrði að bæta við 3–4 kennurum við skólann. Kvað hann það mundu kosta ríkissjóð um 30–10 þús. kr. Hv. þm. virðist hafa fatast hjer reikningslistin. Þó svo væri, að bætt yrði við 3–4 kennurum, þá myndu laun hvers þeirra aldrei verða hærri en laun mentaskólakennara eru nú, 3400–5000 kr. hvcrs, og upphæðin því ekki fara fram úr 15 þús. kr. alls.

Hv. fsrm. meiri hl. fanst kenna öfga í málinu á hlið fhitningsmannanna. Kvað hann áætlun skólameistara um 1–2 kennara í viðbót ekki ná neinni átt, og yfirleitt væri hjer meir farið með kappi en forsjá. Því svara jeg fyrst, að skólameistarinn á Akureyri ætti að vera svo kunnugur slíkum málum, að honum sje trúandi að fara ekki með neinar firrur í því efni. Auk þess vil jeg minna hv. þm. á, að annar maður, sem nú er horfinn úr heimi vorum, flutti þetta mál af ekki minni krafti, maður, sem enginn mun þora að neita, að hafi verið einn af okkar færustu skólamönnum. Sá maður er fyrverandi skólameistari gagnfræðaskólans, Stefán Stefánsson. Hann skrifaði oftar en einu sinni um þetta í blöðin og hjelt því eindregið fram, að hjer væri um stórt nytjamál að ræða, velferðarmál, sem snerti alla þjóðina. Mun og enginn draga í efa, að þetta hafi verið heit sannfæring þess manns.

Jeg sýndi fram á það í framsöguræðu minni við 1. umr. málsins, að hjer er á ferðinni eitt af meiri sparnaðarmálum þingsins. Því svo mikill munur er að stunda nám á Akureyri og í Reykjavík, að þótt fjölga yrði kennurum við skólann nyrðra, þá yrði samt kostnaðarmismunurinn við námið talsvert meiri en næmi launum þeirra kennara. Jafnvel þótt farið sje eftir áætlun þeirra, sem telja, að fjölga þurfi um 3–5 kennara, sem auðvitað nær ekki nokkurri átt, þá myndi samt græðast stórfje á þessu.

Hjer er nýkomin ritgerð eftir einn af kennurum mentaskólans. Kvað hv. frsm. meiri hl. sjer þykja þegar orðið vænt um þessa ritgerð. Jeg get tekið undir með hv. þm. og sagt, að mjer þykir líka vænt um hana. Því þótt höfundur hennar sje yfirleitt annarar skoðunar en jeg, þá staðfesta samt orð hans mína skoðun í því efni, að brýn þörf er á að stækka mentaskólahúsið, ef ekki verði bætt lærdómsdeild við Akureyrarskóla. Nú er það kunnugt, að hópur manna hefir árlega farið að norðan til náms í mentaskólann. Ef nú þingið gengi inn á þá braut, í stað þess að stofna lærðan skóla á Akureyri, að styrkja þá nemendur, sem lengst eiga að og versta aðstöðu til námsins hjer syðra, þá mundi þessi hópur stækka að mun og straumurinn hingað aukast. Yrði þá enn brýnni nauðsynin að bæta við mentaskólahúsið. — Og nú vil jeg vitna í þessa ritgerð, sem segir, að á næsta ári verði hver einasti bekkur mentaskólans að verða þrískiftur, og síðan spyrja: Væri nú nokkuð verra, þótt hver bekkur hjer væri tvískiftur og að þriðji hlutinn væri á Akureyri? Þar er nóg húsrúmið, og við þetta myndi því meðal annars sparast talsverður byggingarkostnaður.

Er jeg, eins og jeg hefi áður tekið fram, þakklátur hæstv. landsstjórn fyrir að hafa undirbúið þetta svo vel, með því að gera skólahúsið á Akureyri svo vel úr garði. Vonast jeg til, að hún láti eigi hjer staðar numið og hætti ekki fyr en sporið er fullstigið.

Ef halda á áfram á þeirri braut að stækka mentaskólann í Reykjavík og varna Norðlendingum með öllu að fá skóla til sín, þá verður þó að lita á það, að norðlenski skólinn var af útlendu valdi hrifsaður frá Norðlendingum fyrir rúmum 120 árum. Nú ætti því að bæta fyrir þetta brot og þann órjett, sem þá var framinn, og láta þá fá skólann aftur, enda gæti það orðið mikil lyftistöng mentalífs í landinu. Og þó að þingmenn sjái ekki rjettmæti málsins á þessu þingi, þá hugga jeg mig við að ekki muni líða á löngu þangað til þingið sjer, hvað rjett er í þessu, og gerir skyldu sína samkvæmt því.

Jón Ófeigsson segir í ritgerð sinni, að bæta þurfi þremur kenslustofum við mentaskólann í Reykjavík, og samt muni vanta teiknistofu, söngstofu og sæmilega lesstofu. En verði þetta frv. samþykt, sem hjer liggur fyrir, má algerlega spara þann kostnað hjer, þar sem húsrúm sem þessu svarar er til á Akureyri.

Þá vil jeg varpa fram þessum spurningum: Hvað á að ráða því, hvort menn ganga lærða veginn? Á það að vera það, hvar menn eru fæddir og uppaldir? Á það að fara eingöngu eftir því, hvort menn eiga ríka eða fátæka foreldra? Hvernig er aðstaðan eins og sakir standa?

Þetta eru aðalatriðin, sem um er að ræða, og það, sem hjer verður greitt atkvæði um með þessu frv.; vænti jeg, að mótstöðumenn þess svari þessum spurningum.

Nú er aðstaðan þannig, að engir nema Reykvíkingar og synir efnaðra manna geta stundað nám við mentaskólann í Reykjavík. Þeir þm. greiða því atkv. með þessu frv., sem vilja gefa fátækum efnismönnum kost á að ganga lærða veginn. Jeg veit, að þeir greiða atkv. á móti þessu máli, sem vilja láta það ráða, hvar menn eru fæddir, hvort þeir fá að ganga mentabrautina eða ekki. Þeir þm. greiða því atkvæði sitt, sem vilja ekki, að flestallir okkar lærðu menn sjeu aldir upp á Reykjavíkurgötum frá barnæsku. Og að síðustu þetta: Þeir, sem vilja, að mörgum efnilegustu unglingum á þessu landi sje gert mögulegt að ganga mentaveginn, þeir verða allir fylgjandi þessu máli.