13.03.1923
Neðri deild: 19. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Baldvinsson:

Afstaða mín til þessa máls er öllum háttv. þm. kunnug frá því í fyrra, og þarf jeg því ekki að rökræða það aftur. Hins vegar voru nokkur atriði, er jeg vildi minnast á í sambandi við þetta mál.

Fyrst er þá skýrsla sendimanns stjórnarinnar til Suður-Ameríku, Pjeturs konsúls Ólafssonar. Skýrslan lá fyrir þingnefnd einni hjer um daginn og hafði aðeins einn maður lesið hana; þá var sent eftir henni af stjórninni, og veit jeg ekki hvað af henni hefir orðið; að líkindum hefir hún hafnað hjá háttv. allshn. Nú vil jeg skora á hæstv. stjórn að birta skýrslu þessa í heilu lagi sem allra fyrst. Þeir eru mjög margir, sem hafa áhuga á þessu máli, og þarf skýrslan því að koma fyrir almenningssjónir, svo að menn sjái, hvernig málið horfir. Það er ekki nægilegt að birta lítilsháttar útdrátt, sem er ef til vill að nokkru leyti litaður eftir áliti og skoðunum þess, sem gerir hann. Það eitt er mjer þó kunnugt um úr skýrslu þessari, að sendimaður stjórnarinnar er sjálfur vonbetri um markað fyrir íslenskan fisk í Suður-Ameríku heldur en hann var áður en hann fór að heiman.

Í fyrra gerði jeg sjerstaka athugasemd um, hvað átt væri við í 1. gr. með orðinu „vín.“ hvort það væri eingöngu vínberjavín, náttúrleg vín, eða hvort einnig kæmist undir það ákvæði dönsk sprittblanda, sem borið hefir verið fram hjer í háttv. deild. án þess að því væri mótmælt, að flutt hafi verið inn síðastliðið ár. Frsm., háttv. 4. þm. Reykv. (MJ). sagði þá, að einungis væri átt við vínberjavín. Jeg get ekki um þetta af því, að mjer standi ekki á sama um, hvert gutlið er, en ef til vill gæti verið ástæða til fyrir hæstv. stjórn að athuga, hvað hæft er í þessum sögum um sprittblönduna, og enn hvaða skilning á að leggja í þetta ákvæði framvegis.

Um vínveitingar innanlands gengur sú saga hjer um bæinn, að Spánverjar hafi krafist þess, að vínveitingar yrðu leyfðar á Hótel Ísland. Er það utanríkisráðherrann á Spáni, sem á að hafa gert þessa kröfu, og kvað það vera ástæða stjórnarinnar til að ganga á móti eindreginni kröfu bæjarstjórnar í þessu máli.