01.03.1923
Neðri deild: 9. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í C-deild Alþingistíðinda. (2350)

31. mál, gjaldeyrislántaka

Magnús Guðmundsson:

Jeg vil leyfa mjer að spyrja hæstv. fjrh. (MagnJ), hvort ekki sje bráðlega von á skýrslu frá hagstofunni um erlendar inneignir og skuldir hjer á landi. Mjer virðist mjög erfitt að taka afstöðu til þessa máls, nema þessi skýrsla komi fram. Ef skuldirnar hafa aukist síðan í fyrra, er augsýnilegt, að ekki er unt að feta þessa leið ár eftir ár. Ef við söfnum skuldum, er það ljóst, að við flytjum meira inn en út, og það er óþolandi til langframa. Í fyrra var gert ráð fyrir, að þessar skuldir næmu um 10 miljónum; af þeim voru 2 miljónir taldar tapað fje, sem ekki kæmi til að við þyrftum að greiða; þá eru eftir 8 miljónir. Af því er skuld Íslandsbanka við danska póstsjóðinn hátt á 5. miljón, er gert var ráð fyrir, að auðvelt væri að komast að samningum um. Jeg hefi einnig heyrt, að slíkir samningar hafi tekist millum póststjórnarinnar dönsku og bankans, og eru þá ekki eftir nema um 3–4 miljónir króna af þessari 10 miljóna króna skuld.

Ef til vill eru þessar 4 miljónir nú greiddar, og þá er engin þörf á láni, en það sjest af skýrslu hagstofunnar, hvort svo er eða ekki.

Vil jeg því, að frv. gangi til nefndar, en afstöðu til þess tek jeg ekki fyr en jeg hefi sjeð skýrsluna. En það má öllum vera ljóst, að það er svikamilla, að taka lán á lán ofan, ef altaf er aukið við skuldirnar. En jeg vona að árið 1922 hafi ekki orðið verra en árið 1921, en úr þessu öllu sker skýrsla hagstofunnar.