27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í C-deild Alþingistíðinda. (2393)

56. mál, sveitarstjórnarlög

Sveinn Ólafsson:

Háttv. flm. (SSt) lýsti því yfir, að hann, eftir ástæðum, mundi sætta sig við till. nefndarinnar um frv., og gerði ráð fyrir, að mál þetta mundi komast í höfn á næsta þingi. Mjer sýnist það nú ekki horfa þesslega við. Sumstaðar er búið að halda sýslufundi og annarsstaðar verða þeir haldnir á næstu dögum. Þess vegna er ólíklegt, að áform nefndarinnar, um að fá málinu skotið til sýslunefnda, takist að þessu sinni, og þá er hætt við að það verði ekki undirbúið í tíma, til þess að það geti orðið lagt fyrir næsta þing. Jeg álít, að það sje einn aðalgalli á þessu frv., og það er einmitt hann, sem háttv. nefnd notar fyrir frávísunarsök, og þessi galli er sá, að frv. gerir ráð fyrir, að hreppsnefndirnar hafi fortakslausan rjett til að breyta til um reikningsárið, án leyfis sýslunefndar. Ef til vill hefi jeg orðið of seinn að koma fram brtt. mínum um að binda þennan rjett hreppanna við leyfi sýslunefndar. Þó afhenti jeg þær framsögumanni nefndarinnar áður en nefndin tók ákvörðun um málið. Með þeirri breytingu sje jeg enga ástæðu til að óttast neinn árekstur milli reikninga innan sýslu.

Yfirleitt tel jeg það vandkvæðalaust að leiða þetta mál til lykta nú á þessu þingi. Þykir mjer hjer vera nokkuð skyndilega að unnið, og hefði jeg kosið, að frv. hefði fengið að ganga til 3. umr. og fá þá búningsbót, sem brtt. mínar fela í sjer, ella fá þær ekki að koma í ljós.

Jeg hefi verið í sýslunefnd 20–30 ár, og er því talsvert kunnugur reikningsmálum sýslnanna. Get jeg ekki sjeð, að nein hætta eða vandi þyrfti að leiða af því, þótt frv. yrði að lögum nú þegar.