20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í C-deild Alþingistíðinda. (2435)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Jakob Möller:

Jeg vil vekja athygli á því, að óvildin í landinu gegn löggildingarstofunni muni ef til vill stafa að einhverju leyti frá því, hver árangur hefir orðið af stofnuninni.

Við fyrstu skoðun ónýttust um 70% tækja þeirra, sem þá voru í notkun í landinu; gæti maður hugsað sjer, að gremjan stafaði af því, hversu miklum kostnaði þetta hefir valdið fyrir eigendur. Er engin nýlunda, að lög, sem þannig verka, verði óvinsæl, enda þótt góð og nauðsynleg sjeu. Mönnum finst þetta óþarfa tiltektarsemi. Menn mega ekki láta sjer nægja að sanna, að óvild sje gegn einhverju, heldur verður líka að vita, af hverju óvildin stafar, áður en breytt er til.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) talaði um hin ólíku hlutverk löggildingarstofunnar, eftirlitið og löggildinguna. En jeg sje ekki annað en að hlutverkin sjeu mjög lík. Það er rjett, að það er hægt að fá löggilt tæki frá útlöndum, en eigi að notast við það eitt, verður um leið að banna smíði slíkra hluta hjer. Er að vísu lítið um smíði þeirra enn þá hjer, en það getur aukist og mun gera það. Auðvitað mætti senda þessi tæki til útlanda til löggildingar, en kostnaður mundi það verða. Hitt get jeg skilið, að þeim mönnum, sem verst er við sjálfstæðisfordildina, þætti þetta viðkunnanlegasta leiðin.