27.02.1923
Neðri deild: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í C-deild Alþingistíðinda. (2552)

16. mál, afnám landlæknisembættisins og stofnun heilbrigðisráðs

Forsætisráðherra (SE):

Mjer þóttu niðurlagsorð hv. þm. Str. (MP) nokkuð einkennileg. Jeg hefi alls ekki stungið upp á því, að hv. allshn. geri breytingar við frv.

Það hljóta allir að sjá, að með þessu frv. er heilbrigðisráði falið að fara með yfirstjórn heilbrigðismálanna, eins og stendur berum orðum í athugasemdum við frv.:

„— — — en hins vegar sum þeirra þess eðlis og svo umfangsmikil, að varla er forsvaranlegt að leggja þau á herðar eins manns. Er hjer sjerstaklega átt við þær ráðstafanir, sem þarf að gera, þegar hættulegar og næmar sóttir ganga um landið, eða þegar verja þarf þjóðina fyrir pestum, er geta borist til landsins frá útlöndum. Í þessum tilfellum er tryggilegra, að ráðin sjeu í höndum fleiri manna. “

Þetta er þungamiðja frumvarpsins, og um leið er reynt að þrengja kerfið, gera það umfangsminna og ódýrara. Það er sama tilætlunin sem þegar frv. var samið. En eftir upplýsingum og vitneskju, er jeg hefi fengið síðar, gæti jeg hugsað, að störfin sjeu meiri en jeg ætlaði í upphafi; því sló jeg þann varnagla í ræðu minni, að kostnaður við hina nýju skipan gæti orðið meiri en gert var ráð fyrir, svo að hjer yrði jafnvel lítill sparnaður. En hjer er um enga stefnubreytingu að ræða, þó að hv. þm. Str. (MP) vildi láta svo heita. Og það er einnig rjett, að í þessu frv. er sami kjarninn sem í frv. því, er stjórn Jóns Magnússonar bar fram á þingi 1919.

Jeg gat þess, að Guðmundur prófessor Hannesson hefði, á þeim stutta tíma, er hann gegndi landlæknisembættinu, samið og gefið út heilbrigðisskýrslur fyrir 10 ár, og bætt með því fyrir syndir annara. Hvort það voru syndir núverandi landlæknis, eða hjeraðslækna, að þeir hafi vanrækt skýrslugerðir, gat jeg ekki um, enda hefi jeg ekki rannsakað það mál.

Háttv. þm. Str. (MP) þurfti á því að halda að vera „prokurator“, er hann sagði, að lítið hafi verið að gera og fátt komið fyrir á þeim tíma, sem Guðmundur prófessor gegndi landlæknisembætti. Hvaða ástæður geta legið til þess, að þá hafi verið minna að starfa en endranær? það mun ekki vera rjett, en það hefir komið sjer illa fyrir hv. þm. (MP), að einn af læknaprófessorunum gat gegnt embættinu með öðrum störfum sínum og auk þess unnið úr 10 ára skýrslum. það bendir ótvírætt á, að starfið sje hvergi nærri eins mikið og hv. þm. segir. En um hitt erum við samdóma, að starfið sje afar ábyrgðarmikið, og það er aðallega af þeirri ástæðu, sem jeg vil fela það sjerstöku heilbrigðisráði.