09.03.1923
Neðri deild: 16. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í C-deild Alþingistíðinda. (2647)

47. mál, stofnun sjóðs til eflingar bindindisstarfsemi

Flm. (Magnús Jónsson):

Jeg varð fyrir vonbrigðum, þegar jeg heyrði hvernig háttv. síðasti ræðumaður snerist við frv., sökum þess, að jeg gekk að því sem vísu, að hann yrði einhver mesti máttarstólpi þess í deildinni. Þá kom mjer það eigi síður á óvart, að heyra hann lýsa öðru eins vantrausti á bannmönnum og fram kom í ræðu hans.

Þessi hv. ræðumaður (JB) hjelt því fram, að verja bæri fjenu til einhverra þeirra fyrirtækja, sem eigi væru svo bundin við einstaklinga eða stofnanir, að sjerstök eftirsjón yrði að, þótt tekjustofninn fjelli burt. En þetta er alveg óframkvæmanlegt. Það er nú einu sinni eðli peninga, að þegar þeim er varið til einhvers, koma alt af upp einhverjar stofnanir eða einhver atvinna, sem ekki er hægt að fella burt, án þess að það komi við hagsmuni einhverra einstaklinga. Þá er spurningin aðeins þessi, hverjum sje best trúandi til þess að afsala sjer fúslega þessu fje í þágu bannsins, þegar til þess kæmi að koma því á aftur. Og við flm. sjáum enga líklegri til þess en sjálfa frumkvöðla bannsins og mestu forvígismenn þess. Væri fjarstæða að ætla nokkrar aðra leið tryggari í þessu efni.

Háttv. ræðumaður (JB) mintist á það, að innan reglunnar væru mestmegnis áhugamenn, sem störfuðu án nokkurra launa. Þetta er ekki nema hálfsagður. sannleikur, því að jafnan þarf fje til þess, að hægt sje að starfa að bindindisstarfseminni, ef að verulegu gagni á að verða. Regluboða þarf t. d. að kosta, og fleira þess háttar. Það, sem mest hefir háð starfseminni undanfarið, er einmitt fjeleysið.

Jeg trúi því vart, að það hafi verið alvara hjá hv. ræðumanni (JB) að hann álíti geta komið til mála, að þeir, sem reglan kostaði til að vinna að bindindisstarfsemi, myndu vinna á móti því að bannið kæmist á aftur að fullu — þetta með 100 regluboða hygg jeg, að hafi aðeins verið ýktur dráttur í myndinni —. Sóma síns vegna gætu þessir menn ekki lagst á móti banninu, aðeins vegna þess, að þeir vilji ekki missa af laununum. (JB: Þá geta þeir borið saltfisksmarkaðinum við). Að svo komnu vil jeg ekki gera þeim upp þær hvatir.

Háttv. ræðumaður (JB) vildi verja fjenu í einhver einstök fyrirtæki, sem svo væru búin, og fjeð því eigi lengur bundið En slíkt er ekki hægt að framkvæma í raun og veru. Þótt fjenu yrði t. d. fyrst varið til þess að byggja spítala, þá myndi þykja þörf að verja fje næsta árs til þess að byggja stúdentagarð, svo mentaskóla, háskóla o. s. frv. Það verða engin takmörk nú á næstunni fyrir því, sem vjer þurfum að láta byggja og framkvæma, og ef ætti að fella fjeð burtu, þá yrði ávalt einhver flokkur manna, sem myndi verða eftirsjón í því, enda þótt þetta fyrirkomulag yrði haft. Þar sem það er nú sýnt, að ávalt myndu hagsmunir einhverra skerðast við brottfall þessara tekna, þá veit jeg enga, sem verða myndu fórnfúsari í þessu máli en einmitt bannmenn, og yrði því langheppilegast að fela þeim meðferð fjárins, og vona jeg, að hv. þm. sjái, að þetta er banninu fyrir bestu og þá jafnframt þjóðinni.