16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í C-deild Alþingistíðinda. (2761)

39. mál, vörutollur

Stefán Stefánsson:

Ekki efast jeg um, að tilgangurinn með frv. þessu sje í alla staði sem bestur, og það hafi vakað fyrir þeim, sem að því stóðu, að efla og styðja íslenska framleiðslu og iðnað. En að það sje mjög æskilegt og þarft, býst jeg við að allir geti verið sammála um, en hinu verð jeg að halda fram, að nefndin hafi í sumum atriðum gengið óhæfilega langt. Hún tekur upp, t. d., toll af erlendum fatnaði og vefnaðarvöru, setur hann úr 18 aurum upp í 75 aura á hvert kg., og tel jeg það mjög vanhugsað af nefndinni, þegar þess er gætt, að einmitt fátækasta fólkið, fjölskyldumennirnir, verða að neyðast til að kaupa þá vöru. Verður tollur þessi fyrir þær sakir þung byrði á hinum fátækari og kemur að því leyti ranglátlega niður. Sumum atriðum frv. hefði jeg fúslega greitt atkvæði, eins og jeg á hinn bóginn hlýt að greiða atkvæði á móti frv., sje t. d. þessi till. nefndarinnar um toll á erlendum fatnaði, ekki færð niður, svo nokkru nemi. Því er líka svo varið, að verksmiðjur okkar hafa fullkomlega nógan markað fyrir sína vefnaðarvöru og þurfa því ekki á neinum verndartollum að halda, tolli, sem hlyti að gera sitt til þess að auka á dýrtíð í landinu, ef svo keyrir úr hófi sem allsherjarnefnd ræður til.

Þá kem jeg að þeim lið brtt. og frv. að setja 6 kr. toll á hver 100 kg. af innfluttu heyi. Jeg hefi þá skoðun, að þetta sje alger ógerningur. Eða finst hv. þdm. yfirleitt ástæða til að styðja að því að bændur selji hey sín? Jeg efast mjög um það. Sennilega mundi svo hár tollur leiða til þess að hækka mjög heyverðið í einstökum tilfellum, og væri þá vel hugsanlegt, að of miklu yrði fargað, svo heysalinn sjálfur hefði ekki nóg handa skepnum sínum. Auk þessa er útlent hey allmiklu ódýrara enn innlent; vissi jeg til þess, að á Norðurlandi var munurinn um eitt skeið nálægt 8–10 au. á hvert kg. Væri því frv. samþykt, gæti afleiðingin eðlilega orðið sú, að ýmsum þurrabúðarmönnum við sjó yrði fyrirmunað að hafa 1–2 kýr sjer til framfærsluljettis, því ekki er alt af jafn auðvelt að taka sig upp að sumrinu og verða áð fara jafnvel í aðrar sveitir til heyskapar, fá svo máske heyin skemd vegna óþurka og óhæfilega dýr, því um það leyti er kaupgjald manna venjulegast hæst. Nei. Þetta finst mjer óheppilegt, og sje ekki, að landbúnaðinum sje neinn greiði gerður með slíkri tillögu. Jeg get ekki greitt frv. atkvæði mitt, nema breyting fáist eða feldir verði burt þessir tveir liðir, sem jeg hefi minst á.