16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í C-deild Alþingistíðinda. (2763)

39. mál, vörutollur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg gekk að því vísu, að raddir mundu heyrast gegn frv., og þá sjerstaklega frá hv. þm. Reykv. Það er ekki í fyrsta sinn, að þeim finst höggvið nálægt Reykjavík. Var það svo um daginn, er skattamálin voru til umræðu, og svo ef það enn. Annars skil jeg ekki ástæðuna fyrir því, hvað altaf er komið við hjarta þeirra í þessum málum.

Jeg tók svo eftir, að hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) þætti hart ákvæðið um tollinn á ávöxtum. En jeg vil minna hann á, að hann þarf ekki að vera svo hár til þess að nema tvöföldu til þreföldu innkaupsverði þeirra, ef þeir, eins og honum sagðist frá, fást fyrir lítið eða ekkert í nágrannalöndunum. Sje jeg heldur ekki, hvaða gagn sje gert með innflutningi þeirra, og nemur það fje þó allmiklu árlega, sem þar er á glæ kastað. Vissi jeg til þess, að í vetur komu 10 tonn af appelsínum með sama skipi og til sama mannsins. Yrði tollurinn máske til þess, að fólk hætti að kaupa ávextina, og sje jeg ekki, að með því sje skaði skeður.

Sami þm. (JÞ) talaði um, að til mála gæti komið að ganga inn á verðtollabrautina. En margir erfiðleikar eru á því, og fyrst og fremst með innheimturnar. Það er nærri því ómögulegt að hafa eftirlit með því, að alt fje komi fram, sem innheimt er, eða alt innheimtist. En allur þessi innflutningur er í þann veginn að sliga þjóðina. Við berjumst í bökkum, og þó útflutningur sje mikill, er innflutningurinn sífelt meiri.

Hvað viðvíkur heyinu, þá er það rjett, að enn sem komið er, er lítið flutt inn af því. En ákvæðið í frv. er komið fram til þess að fyrirbyggja eða hindra það, að honum haldi áfram eða hann aukist. Það er fjarstæða að halda því fram, að í harðindum til sveita komi útlent hey að notum. Til þess eru flutningsvandræðin of mikil. Og það er ómögulegt, að landið hafi gott af því, að mikið útlent hey sje flutt inn til kaupstaðanna. Flest kauptún hafa góð upplönd og geta fengið hey þaðan. Er raunar nokkuð sjerstaklega ástatt fyrir Reykjavík og líkt því mun vera um Ísafjörð. Það er rjett hjá hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að það er einkenilegt, að þm. Ak. og Ísaf. skuli geta verið með þessu. Þeir eru ekki eins hörundssárir og hann. Rjett er það hjá honum, að frv. hefir tvennskonar tilgang. Við höfum í huga, bæði að afnema toll, sem er óvinsæll, og draga úr ónauðsynlegum innflutningi, og í þriðja lagi að vernda innlenda framleiðslu.

Hv. 1. þm. Eyf. (StSt) talaði um það, að fátæklingar keyptu meira af erlendum fatnaði en aðrir. Þetta er vitanlega ekki rjett, og býst jeg við að það sje sagt í athugaleysi. En annars á hann hægt með að greiða frv. atkvæði sitt til 3. umr. og koma þá með brtt. Undirtektir hans með heyið hygg jeg stafi af umhyggju hans fyrir Siglfirðingum. En þeim er tiltölulega auðvelt að afla sjer heyja nálægt sjer, og er því ekki hægt að segja, að þeir verði hart úti.

Hv. 2. þm. Reykv. (JB) hjelt því fram, að það gjald, sem fyrst af öllu þyrfti að lækka, væri sykurtollurinn. En hann er orðinn tiltölulega lægstur. Er hann jafnhár nú og hann var í stríðsbyrjun, og í samanburði við ávaxtaskattinn tiltölulega lágur. Mjer komu þó þessi ummæli hans ekki á óvart, því jeg veit, að það er síður hans að berjast á móti öllum tekjulindum ríkissjóðsins, hversu holt sem það annars kann að virðast.

Því hefir verið haldið mjög á lofti, að sami tollur væri á slitfötum og silki. Og þetta er satt, ef tillit er tekið til þungans eins, og þar sem þessar vörur eru seldar eftir metratali, er og auðsætt, að fleiri metrar muni koma í 10 kg. t. d. af silki heldur en af slitfataefni. En þar á móti má benda á, að þegar kaupmenn verðleggja vörur sínar, fara þeir ekki nákvæmlega eftir vörutollinum í einstökum atriðum, heldur jafna þeir tollinum niður eftir því, hvernig vörurnar muni seljast. Mikið af ósanngirni vörutollsins hverfur því í álagningu kaupmanna.

Viðvíkjandi ræðu hv. 1. þm. Árn. (EE) þarf jeg ekki að segja margt. Hann þóttist ekki geta ákveðið afstöðu sína til þessa máls meðan ekki væri víst um ullarverksmiðjuna á Suðurlandsundirlendinu, og get jeg ekki við því gert, þó jeg sjái hins vegar ekki það mikla samband, sem á að vera þarna í milli, eins og nú stendur að minsta kosti.

Að því er snertir hv. 1. þm. Reykv. (JakM) skal jeg heldur ekki lengja umr. með því að svara honum, þó mig undri nokkuð, hversu harðskeyttur hann var í garð þessa tolls. Meginmeiningarmuninn milli okkar höfum við rætt áður, og get jeg fyrir mitt leyti vísað til þess, því ekkert nýtt hefir komið fram frá hv. þm. (JakM), sem ekki hefir áður heyrst. Annars er þessi mótspyrna á móti þessu máli einskonar sjúkdómur á hv. þingmönnum Reykvíkinga og verður sjálfsagt ekki læknaður, þó umræðurnar haldi lengur áfram en orðið er.