24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í C-deild Alþingistíðinda. (2817)

141. mál, skoðun á síld

Jón Baldvinsson:

Svo sem sjá má í nál. hafði jeg dálitla sjerstöðu í þessu máli. Jeg taldi rjett að vísa frv. til stjórnarinnar, en gerði það ekki að kappsmáli og hefði látið það liggja kyrt, ef andmæli hefðu engin komið gegn frv. Mjer virðist frv. fara fram á meira en að leggja niður einn starfsmann; hjer er verið að breyta starfsviði yfirmatsmannanna. Jeg treysti mjer ekki til að ákveða þessi svæði, svo að vel væri frá því gengið. En jeg veit, að sumir nefndarmenn eru þessu kunnugir, og því treystist jeg ekki til að leggja fast á móti frv. í nefndinni. En jeg sje ekki, að nein hætta geti verið á ferðum, þó að málið bíði til næsta þings. Þá verða launalögin tekin til meðferðar, en þessir menn taka laun eftir þeim lögum. Nú er mjer kunnugt um, að yfirmatsmaðurinn á Siglufirði hefir orðað, að hann þyrfti að fá launahækkun, og má vera, að veruleg breyting yrði gerð á allri þessari skipun á næsta þingi.

Eins og nál. ber með sjer, bar jeg ekki fram formlega tillögu um að vísa málinu til stjórnarinnar, en ljet einungis í ljós, að jeg teldi það rjettast. En eftir þeim upplýsingum, sem fram eru komnar, vil jeg leggja til, að það sje gert, og ber hjer með fram tillögu um það.