30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í C-deild Alþingistíðinda. (2831)

141. mál, skoðun á síld

Jakob Möller:

Jeg hefi ekki sannfærst af mótmælum þeim, sem komið hafa gegn frv. Jeg hefi, ásamt meiri hluta sjútvn., skrifað undir nál. og lagt til, áð frv. verði samþykt. Kemur það til af því, að nefndin hafði þær upplýsingar frá nákunnugum mönnum, að sýslun þessi væri óþörf.

Hv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) sagði, að síldveiði hafi byrjað fyr á Austfjörðum en annarsstaðar, og kann það að vera rjett. En um síðustu 20 árin er mjer kunnugt, að þar hefir verið sáralítil síldveiði. Og að segja má, að síldveiði hafi lagst niður á Austfjörðum, stafar af því, að veiðiaðferðirnar hafa gerbreyst. Nú er veiðitíminn fyrir Norðurlandi um hásumarið, en á þeim tíma veiðist lítið á Austfjörðum; þar er haustið besti veiðitíminn, en síldin þá veidd þar nær eingöngu í fyrirdráttarnætur. Og þó að menn vonist til, að síldin muni aftur ganga að Austfjörðum, er það fyrirsjáanlegt, að síldarútgerð muni aldrei geta borgað sig þar á haustin, því að þá er markaðurinn orðinn fullur af norðlenskri sumarsíld. Annars er mjer þetta ekkert kappsmál, og get jeg vel fallist á að greiða atkvæði með dagskrá hv. þm Ak. (MK), þar sem nú eru komin fram ákveðin mótmæli gegn frv. frá bæjarfógetanum á Seyðisfirði fyrir hönd Austfirðinga. Gegn þeim mótmælum tel jeg tæplega rjett að samþykkja frv. nú.