24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (3012)

125. mál, landmælingar og landsuppdrættir

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg er alveg sammála hv. 4. þm. Reykv. (MJ) um, að það, sem komið er út af landsuppdráttum herforingjaráðsins alt frá Hornafirði til Eyjafjarðar, sje hreinasta gersemi og það mesta og besta, sem gert hefir verið á síðari árum. Að hætta við það verk hálfunnið væri þjóðarminkun. En þetta er hins vegar stórfelt útgjaldamál, en hagur landsins er síður en svo glæsilegur nú. Þegar stríðið skall á, höfðust landmælingamennirnir dönsku við að Hólum í Hjaltadal, eða þar í nágrenninu. Síðan hafa þeir aðeins starfað 1 ár, og hljóta því að vera komnir að Eyjafjarðarsýslu. Það er því búið að kortleggja meira en helming alls landsins. Það er sem sje ekki ætlast til, að óbygðirnar um miðbik og austurhluta landsins sjeu kortlagðar jafnnákvæmlega og hin bygða strandlengja. Jeg er hv. flm. (MJ) því fullkomlega sammála um, að þessu verki verði að halda áfram, enda er áætluð upphæð í þessu skyni í fjárlagafrv. 1924. En ef til vill er upphæðin fulllág, einkum vegna gengismunar, haldi hann áfram. Og eins stóð upphæð til mælinga í fjárlögunum fyrir 1922.

Í fyrravor barst fyrirspurn frá herforingjaráðinu um það, hvort stjórnin vildi láta halda verkinu áfram það ár. Stjórnin ákvað þá að gera það ekki og bar fyrir sig peningaleysi. Sama má segja enn, og skoða jeg það sem afgert mál, að ekkert geti orðið úr mælingum á yfirstandandi ári. En jeg vona, að það rakni kanske eitthvað úr á næsta sumri, svo að það verði þá fært. Um þetta skal jeg ekki fara frekari orðum, en snúa mjer að einstökum liðum í þáltill.

Það verður sjálfsagt engum erfiðleik um bundið fyrir landsstjórnina að hefja samninga við herforingjaráðið. Jeg er ekki í minsta vafa um, að ráðið mun taka vel í þá málaleitun, að haldið yrði áfram verkinu. Og hver stjórn mundi af sjálfsagðri kurteisisskyldu snúa sjer fyrst þangað, til þeirra manna, sem unnið hafa þetta mikla verk svo árum skiftir.

Viðvíkjandi 2. lið, þá er jeg ekki hræddur um, að við getum ekki náð í viðunanlega samninga af hendi herforingjaráðsins. Jeg hugsa, að ekki muni stranda á því, en hitt væri frekar, að okkur yrði erfiðara vegna fjárskorts að uppfylla skilmálana. Þess vegna er jeg ekki viss um, að rjett sje að binda samningana of mikið, heldur verðum við að áskilja okkur rjett til að geta stöðvað verkið, ef það yrði óhjákvæmilegt vegna fjárskorts.

Jeg get ekki neitað því, að mjer finst óviðkunnanlegt að hafa hálft landið með mælikvarðanum 1:50000, en hinn helminginn með 1:100000. En þó verð jeg að fallast á það, sem hv. flm. (MJ) sagði, að minni stærðin er betri, bæði vegna ódýrleika og þess, hvað hún er hentug til að hafa með sjer á ferðum. Það er ekki gott að vita, hvað mikið herforingjaráðið á eftir af upplaginu 1:50000, en það er varla mjög mikið. Það hefir gengið vel út til þessa, því uppdrættirnir hafa verið tiltölulega ódýrir, þar sem þeir hafa ekki kostað nema 1 kr. blaðið hingað til.

5. liður er óþarfur, þar sem búið er að gera samning við einn bóksala hjerna í bænum um að hafa útsölu á hendi fyrir ákveðið útsöluverð. Ekki held jeg, að það verði hörgull á uppdráttunum, eins og hv. flm. (MJ) hjelt fram. En það er þá altaf hægt að fyrirbyggja með því að hafa upplagið nógu stórt.

Hvað snertir vatill. frá sama hv. þm. (MJ), um nýjan 6. lið, þá eigum við að sjálfsögðu heimtingu á að fá öll drög til uppdrátta frá þeim árum, sem við kostuðum mælingarnar eingöngu. Það er alveg sjálfgefið, en líklegt er, að þeir verði tregir til að láta af hendi hin frumdrögin.

Um vatill. hv. þm. Dala. (BJ) er það að segja, að það þarf að fara talsvert laglega yfir þann lið við samningana, svo að í honum geti ekki falist móðgun til herforingjaráðsins.

Yfir höfuð get jeg þá fylgt þessari þáltill., sem hjer liggur fyrir.