04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (3083)

136. mál, endurskoðun löggjafarinnar um málefni kaupstaðanna

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg get verið stuttorður, þar eð hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hefir hjálpað mjer og tekið fram ýmislegt, sem jeg hefði annars þurft að segja.

Jeg vil þó geta þess, að það var látið í veðri vaka í fyrra, að fram mundi koma á þessu þingi lagabálkur, er tæki yfir alla löggjöf Reykjavíkurkaupstaðar. Hún er nú, sem menn vita, öll í pörtum og auk þess mjög gömul — elsti parturinn frá 1872, ef jeg man rjett —, og er því kominn meira en tími til að skinna hana upp. Það er því naumast rjett, að minsta kosti að því er Reykjavík snertir, að till. nefndarinnar sje ekki á rökum bygð.

Jeg veit annars ekki, hvernig hv. 2. þm. Reykv. (JB) gat búist við betri undirtektum en þetta hjá nefndinni. Þess er einmitt getið, að Reykjavík hafi sjerstöðu að ýmsu leyti, og þá sjerstöðu eigi að taka til greina með sjerstökum lögum. Hvaða ástæða er þá til að vera óánægður ?

Um útsvörin skal jeg taka það fram, að það er gengið lengra um útsvarsskylduna í frv. bæjarstjórnar Reykjavíkur en nokkursstaðar á þessu landi er eða hefir verið gert. Yrði frv. þannig óbreytt að lögum, þá yrði t. d. bátur útsvarsskyldur hjer, sem kæmi frá Ísafirði með fisk, sem hann hefði fiskað á leiðinni. Eins væri um erlenda fiskimenn, er hingað kæmu. Nei, það verður að fara varlega í þessum efnum. Ef slíkt yrði lögleitt hjer, þá kæmu aðrir kaupstaðir og sveitir landsins þegar í stað og krefðust, að þeim væru gerð sömu skil. Gæti að lokum svo farið, að enginn maður gæti óhræddur farið um landið, þar sem atvinnu væri að hafa, sökum útsvarsskylduhættunnar.

Hv. 2. þm. Reykv. (JB) sagði, að lóðargjaldið gæti orðið mjög góður gjaldstofn. Já, ef það er ekki of hátt, en það gjald, sem frv. ráðgerir, er of hátt, að minsta kosti í einu stökki, og sennilega þótt hækkað væri smátt og smátt. Annars þykist jeg sjá, að hjer sje ekki annað að gera en að löggjöfin taki í sínar hendur skipun þessara mála. Hjer í bænum ríkja nú svo miklir flokkadrættir, að hæpið er, að menn geti komið sjer saman. Auk þess er nú, eins og hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) gat um, komin á ný skipun útsvarsmálanna. Mætti vel vera, að þar væri komið á fyrirkomulag, sem menn gætu vel felt sig við, og er því rjett að sjá fyrst, hvernig það reynist, en lögleiða ekki í millibilinu aðra aðferð. Engum efa er það bundið, að tekju- og eignarskatturinn muni gefa góðar bendingar um það, hvernig leggja skuli á aukaútsvarið, enda mun síst af því veita.

Jeg tók svo eftir, að hv. 1. þm. Reykv. (JakM) þætti það fjarstæða að hugsa sjer sama fjármálafyrirkomulag í öllum kaupstöðum landsins. Jeg veit ekki, hvort hann átti þar aðeins við niðurjöfnun aukaútsvara. (JakM: Gjaldstofna yfirleitt). Jeg fæ ekki betur sjeð en að líkt standi á um þá í kaupstöðunum í öllum aðalatriðum, og að svipað fyrirkomulag eigi því við. Það má vera, að sjerstök ákvæði þurfi t. d. um Siglufjörð, en till. okkar nefndarmanna er því ekki til fyrirstöðu.

Mjer heyrðist hv. 2. þm. Reykv. (JB) vera að kvarta undan því, hve tafsamt það væri að þurfa að leita í mörgum lögum að náskyldum ákvæðum. Svo er því einmitt farið um löggjöf Reykjavíkurkaupstaðar, og það er þetta, sem við viljum lagfæra. Eins og jeg gat um í byrjun, eru nú sum ákvæði þeirra laga frá 1872, og er því mál til komið, að þeir lagastúfar allir verði færðir saman og settir í eitt kerfi.