20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (3134)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg skal leiða hjá mjer að svara flestu af því, sem fram hefir komið. Aðeins víkja að því, sem hv. 1. þm. Reykv. (JakM) sagði. Jeg hefi litið svo á, að till. Þessi væri eins hugsuð og hún er orðuð, og hún nefnir hvergi þá rannsókn, sem hjer hefir verið rætt svo mikið um. Hinn naumi tími til þingloka sýnir líka, að hún gat aldrei gert ráð fyrir öðru en athugun þeirra gagna og upplýsinga, sem bankastjórnin gat í tje látið. Enginn gat vænst þess, að hún gæfi einstökum mönnum slíkar upplýsingar, en þess verð jeg að vænta, að hún teldi sjer skylt að gefa trúnaðarmönnum þingsins þvílíkar upplýsingar, og myndu þær greiðlega í tje látnar. Að þetta er meining okkar, má sjá fyrst og fremst af því, að við höfum óskað eftir því, að þessi athugun færi fram í kyrþey. Í öðru lagi af því, að þetta kemur svo seint fram, að ekki mundi tími vinnast til rannsókna. En þó að fáir dagar sjeu eftir af þinginu, þá ætti þó að vera nægur tími til að taka á móti skýrslu bankastjórnarinnar, þótt ekki sje tími til að fara í gegnum allar bækur bankans og skjöl.

Mjer fanst þessi hv. þm. (JakM) taka með meiri þekkingu og gætni á þessu máli en ýmsir aðrir hv. þm., sem talað hafa. Hann hefir engar getsakir gert okkur flutningsmönnum tillögunnar, og tekið hana eins og hún liggur fyrir, með þeirri skýringu, sem jeg gaf í framsögu.

Vjer flm. höfum með till. rækt beina skyldu vora, og engum, sem þekkir til úti um sveitir landsins, mun þykja ótímabært að fá vitneskju um horfur peningamálanna. það er alkunna, að fólkið yfirleitt kennir bankanum um lággengið og kröggurnar, þótt vitanlega sjeu fleiri gjörendur í því máli. Hann verður þó jafnan talinn stærstur.

Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja. hvernig atkv. falla, og tel, að við það, sem er fram komið, sje þegar nokkuð fengið, þótt fyrirheitin einhver frá hendi talsmanna bankans kunni að misfarast.