23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (3158)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal gera mjer alt far um að vera stuttorður. En jeg verð að drepa á nokkur atriði í ræðu hv. 5. landsk. þm. (JJ). Út af hinni nýafstöðnu rannsókn bankans, sem jeg talaði um, en hann virtist undrast, að jeg legði nokkuð upp úr, verð jeg aðeins að minna hann á það, að sú rannsókn var hafin að fyrirlagi þingsins og 2 kosnir af þinginu, 2 af bankanum og oddamaður tilnefndur af hæstarjetti. Er það þá engin trygging?

Um tapið er það að segja, að jeg hefi aldrei sagt, að það gæti ekki orðið meira, en hitt hefi jeg sagt, að bankastjórarnir fullyrtu, að þeir hefðu ekki orðið varir við neitt, sem benti á, að meira mundi tapast heldur en rannsóknarnefndin hefði gert ráð fyrir.

Út af ummælum hv. 5. landsk. þm. (JJ) um ávísunina, sem Íslandsbanki á ekki að hafa getað greitt 2. des. síðastl., vil jeg gefa þær upplýsingar, að jeg símaði í dag til hr. bankastjóra Jens Waage og spurði hann um þetta. Sagði hann mjer, að ávísunin hefði verið greidd samdægurs, og hlýtur hann að hafa sjeð þetta af bókum bankans.

Hæstv. atvrh. (KIJ) lýsti því yfir, að bankarnir hefðu gert samning sin á millum og að landsstjórnin hefði þar lagt samþykki sitt á, og sama hefi jeg tekið fram áður. Þarf þar engu við að bæta.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) spurði, hvers vegna jeg hefði ekki skipað þegar bankastjórana, eftir að jeg hafði tekið valdið frá fjármálaráðherra til að undirskrifa skipun þeirra. Jeg gerði þetta ekki vegna þess, að öll stjórnin taldi óheppilegt að skifta um á miðju ári; það gæti spilt lánstrausti bankans.

Hv. sami þm. (JJ) vildi nú reyna að draga úr samlíkingunni milli mín og Gissurar Þorvaldssonar. En hann getur ekki neitað því, að blaðið vildi sýna mjer þá mestu móðgun, sem það gat upphugsað. Blaðamaður frá „Berlingske Tidende“ kom til mín og spurði, hvað gerst hefði í Spánarmálinu. Jeg sagði honum, að samþykt hefði verið 1 árs undanþága frá bannlögunum, en þrátt fyrir það hefði bannið sterkar rætur hjá þjóðinni, en hún hefði orðið að láta undan vegna fjárhagslegrar nauðsynjar. Þá spurði hann, hvað gert mundi verða framvegis; jeg sagði, að undanþágan mundi verða framlengd.

Hefði jeg nú ekki sagt þetta, en talið líklegt, að undanþágan mundi ekki framlengd, þá gat það stórkostlega spilt fyrir lánstrausti landsins.

Um sjóðþurðina í Íslandsbanka skal jeg ekki tala nú; jeg vjek að því svo ítarlega í fyrstu ræðu minni.

Um vextina er það rjett, að þeir eru nú 1/2% hærri í Íslandsbanka en Landsbankanum, en þeir hafa lækkað um 1/2% að tilhlutun bankaráðsins.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) sagði, að hv. þm. V.-Sk. (LH) hefði aldrei sagt, að fjármálaráðherra hefði sagt, að hann hefði ekki aðgang að veðinu, heldur að hann hefði ekki aðgang að bókum bankans. Má vel vera, að rjett sje, að hv. þm. (LH) hafi sagt þetta. En þetta er ekki rjett; eins og 22. gr. reglugerðar Íslandsbanka sýnir, þá á sá ráðherra, sem bankarnir heyra undir, fullan aðgang að bankanum, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa greinina upp:

„Jafnframt því, að landsstjórnin, með því að hafa þrjá þingkosna fulltrúa í fulltrúaráðinu, getur haft eftirlit með því, að bankinn hlýði fyrirmælum laga 7. júní 1902 og reglugerðar þessarar, og fullnægi sjerstaklega skilyrðunum fyrir seðlaútgáfurjetti sínum, er enn fremur ákveðið, að ráðherra Íslands hefir rjett til þess, hve nær sem hann vill, að heimta sýnt og sannað, að málmforði bankans sje í hinu lögákveðna hlutfalli við seðla þá, sem í veltu eru, og auk þess hefir hann aðgang að framkvæmdastjórnarumræðum og rjett til þess, hve nær sem vera skal, að láta sýna sjer bækur bankans og skjöl“. Bankastjórar Íslandsbanka líta einnig svo á, að ráðherrann hafi fullan aðgang að bankanum, og það er víst, að nú á þetta reglugerðarákvæði við þann ráðherrann, sem bankamálin heyra undir, og það er fjármálaráðherrann, jafnt þótt forsætisráðherra undirskrifi nú skipun bankastjóranna.

Um bankastjóra Tofte hefi jeg áður getið. Var ekki nema sjálfsagt, að bankinn stæði við gerða samninga gagnvart honum. Undan því var ekki hægt að komast.

Þá lýsti sjer enn hræðslan hjá hv. 5. landsk. þm. (JJ) um það, að jeg færi í bankann þegar jeg ljeti af stjórn. þann ótta ætla jeg ekki að taka frá honum. Áður en þing kom saman, var það símað um land alt, að jeg ætlaði að fara frá í þingbyrjun og inn í bankann. En jeg sit nú enn þá, þótt jeg hafi átt litlum byr að fagna hjá hv. þm. (JJ).

En jeg skýri honum ekki frá því, hvort jeg muni taka embætti eða fara á eftirlaun, þegar jeg fer frá völdum. Veit jeg líka fyrir víst, að ef jeg lýsti því yfir, að jeg mundi fara á eftirlaun, þá mundi blað hans fyllast rjettlátri reiði yfir því, að jafnungur maður skyldi gera það. En því á jeg bágt með að trúa, að þetta sje af einskærri ást til mín, eins og hv. þm. (JJ) sagði, að hann spurði mig um þetta. Hefi jeg aldrei orðið var hlýju eða samúðar frá honum eða hans blaði, og þegar jeg var fjármálaráðherra, vildi blað hans ekki flytja framsöguræðu mína í fjármálunum svo að þjóðin fengi að sjá hana.

Hann sagði, að sjer líkaði illa, ef jeg endaði leiðinlega mína pólitísku braut. Hann mun þar litlu um ráða; mun þar mestu valda mín eigin hegðun. Þarf jeg ekki að þakka blöðunum minn stuðning. Þau hafa aldrei haft ást á mjer. Það, sem ræður því, að jeg lifi enn sem stjórnmálamaður, er það, að jeg hefi stundum getað talað til þjóðarinnar, og hún hefir tekið það til greina. Vona jeg, að jeg á næsta sumri fái tækifæri til þess að skýra þjóðinni frá mínum áhugamálum og láta hann dæma á milli.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) virtist taka fremur illa í það, að frv. kæmi fram um bankaeftirlitsmann. Það er dálítið einkennilegt. Er þessi ráðstöfun ekki til þess fallin að veikja traust bankanna, heldur þvert á móti eðlilegur liður í þeim tryggingarráðstöfunum, sem nauðsynlegar og sjálfsagðar eru, að stjórnin hafi með höndum.

En þótt þessi þingnefnd yrði sett, mundi árangurinn af starfi hennar ekki verða nema „humbug“ og mundi ekki fá svalað þorsta þeirra manna hjer á þessu hv. þingi, sem hafa einlægan hug á að komast að því rjetta í þessu máli, og vita um, hvort þær kviksögur eru á nokkru bygðar, sem borist hafa út um land um bankann.

Hv. sami þm. (JJ) mintist á sparisjóðinn á Eyrarbakka. Hann mundi þurfa rannsóknar við. Stóð jeg þar ekki í vegi; það heyrir undir fjármálaráðherra. Veit jeg ekki, hvort hæstv. fyrv. fjármálaráðherra hefir skipað rannsókn þar, en hitt veit jeg, að það kom eitthvað til hans kasta.

Hv. þm. (JJ) vildi víta Eggert Claessen fyrir það, að hann hefði sagt, að gengið kæmi ekkert bankanum við. En við þetta er það að athuga, að bankastjórinn sagði aðeins, að bankinn gæti grætt og starfað, hvað svo sem genginu liði; en hann sagði jafnframt, að sjálfsagt væri, að bankinn styddi að því að lagfæra gengið svo sem honum væri unt.

En það er erfitt að lagfæra gengið. Það fer eftir vissu lögmáli, og til þess að breyta því, þarf alveg sjerstakar ráðstafanir. Lántaka læknar aðeins í bili, en ekki til lengdar.

Vil jeg svo ekki, þar sem langt er liðið á nótt, tala meira í þessu máli. Aðeins harðlega mótmæla því, að stjórnin og meiri hluti hv. þm. beri í þessu máli annan hag en þjóðarinnar fyrir brjósti.