05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í D-deild Alþingistíðinda. (3200)

155. mál, atvinnuleysisskýrslur og atvinnubætur

Flm. (Jón Baldvinsson):

Hæstv. atvrh. (KIJ) tók allvel í þessa tillögu, eftir því, sem jeg bjóst við, og lýsti enn fremur yfir því, að stjórnin hefði í hyggju að ráðast í sumar í ýmsar framkvæmdir, er ákveðnar hafa verið í lögum, svo sem t. d. að reisa viðaukann við geðveikrahælið á Kleppi. Jeg hygg einnig, að stjórnin muni ekki geta haft á móti 2. liðnum, þótt hana vanti fje, því að hæstv. atvrh. (KIJ) upplýsti, að stjórnin gæti gert tvent, samþykt lántökur sveitarfjelaga og í öðru lagi veitt nauðsynlegan styrk til atvinnubóta, ef atvinnubrestur yrði, eða hallæri, eins og hæstv. atvrh. (KIJ) orðaði það. Jeg verð því að telja undirtektir hæstv. stjórnar viðunandi.

Í tilefni af því, hvort bæjar- og sveitarstjórnir mundu verða við þeim tilmælum að safna skýrslum þessum, tel jeg engan vafa á, að þær muni fúsar til þess. (LH: Það er nóg af skriffinskunni, þótt ekki sje við hana aukið). Það er satt, að altaf er verið að auka störf hreppstjóranna, meira að segja var bætt á þá verkum í dag. En jeg hygg, að stjórnin þurfi ekki að framkvæma þetta á þann hátt, að það nái yfir alt landið, heldur aðeins þar, sem nauðsyn ber til og þessi skýrslugerð á við. En það mundi aðallega verða í kaupstöðum og þeim sveitarfjelögum, þar sem stór kauptún eru.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) andmælti aðallega 2. og 3. lið tillögunnar. Var hann þó í raun og veru ekki mótfallinn þeim, en taldi þá þýðingarlausa. En jeg tel ekki þýðingarlaust, að þingið láti í ljós vilja sinn í þessu efni, þar sem bæði fyrverandi og núverandi stjórn hafa skotið sjer undan að framkvæma þau verk, sem þeim hefir verið falið að gera, svo sem það að reisa landsspítalann. (Atvrh. KIJ: það er ekki hægt nú). Þó að fje sje ekki til þess, er stjórninni heimilt að taka lán. Auk þess er í fjárlögunum veitt fje til fjölda mannvirkja.

Mótmæli hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) skil jeg mjög vel. Hann hefir enga sjerstaka hvöt til þess að bæta úr atvinnuleysi eða gera nokkuð í þá átt. Hann kvað þessa skýrslusöfnun alveg tilgangslausa, en jeg álít mikið unnið við að fá ábyggilegar skýrslur um atvinnuleysi í landinu.

Það er ekki allskostar rjett, sem hv. þm. (JÞ) sagði, að atvinnuvegum vorum væri svo háttað, að jafnan hlytu einhverjir að vera atvinnulausir einhvern hluta ársins.

Þingmaðurinn (JÞ) gætti ekki að því, að atvinnuvegir okkar hafa allmikið breyst á síðustu 10–15 árum. Hafa nú t. d. verið teknir upp togarar við fiskiveiðarnar. Er það stórframleiðsla, sem mætti jafna til verksmiðjuiðnaðar annarsstaðar. Þetta var alt öðruvísi áður. Þá voru atvinnutækin fleiri og smærri og á fleiri manna höndum en nú er. Jeg álít því, að þeim mönnum, sem stuðlað hafa að breytingu á atvinnuvegunum, beri skylda til að bæta úr því atvinnuleysi, sem verður fyrir það, hvernig þeir haga nú atvinnurekstrinum. Það eru þessir menn, sem teygja fólkið til kaupstaðanna, og þeim ber því skylda til að láta það hafa atvinnu til að lifa af.

Hv. þm. (JÞ) spurði að því, hvaða fólk ætti svo að taka upp á þessar skýrslur. Stjórnin setur auðvitað reglur um það, og vona jeg, að þær verði fullnægjandi til að sýna, hvernig ástandið er nú í kaupstöðum landsins. Eins er um það, hve oft þessar skýrslur verða teknar. Stjórnin setur náttúrlega einnig reglur um það. Jeg hafði annars hugsað mjer, að nægja myndi einu sinni í mánuði, en við nánari athugun sje jeg, að vel getur verið, að oftar þurfi að gefa þær út hjer í Reykjavík. Er jeg viss um, að þessar skýrslur myndu koma að miklu gagni. Myndu þær sýna ljóslega, hvernig ástandið er, og yrði þá auðveldara að vinna bót á því. Líklega væri rjett að láta hagstofuna vinna úr þessum skýrslum og gefa yfirlit um þær. Trúi jeg ekki, að hún sje svo illa liðuð, að hún þyrfti 3 ár til þess, eins og einn hv. þm. gaf nú í skyn.

Hv. þm. (JÞ) mintist á skýrslu, sem gefin hefði verið út um atvinnulausa menn hjer í bænum, og að hún hefði ekki þótt sem áreiðanlegust. Það er rjett, að skýrslan var vefengd. Hitt er annað mál, hvort ástæða hafi verið til þess. Sú skýrsla mun hafa sagt rjett frá um atvinnuleysi manna, og var því þörf í alla staði. Á hinu furðar engan, þótt meiri hluti bæjarstjórnar vildi gera lítið úr henni og snúa út úr henni. Það hefir verið þeirra áhugamál fyr og síðar að reyna að dylja ástandið í bænum. Gera þeir það til að reyna að fá verkamenn til að lækka kaup sitt. Býst jeg við, að mótstaðan gegn þessari till. sje runnin undan sömu rifjum.

Þá mætti líka geta þess, að ef samþykt yrði sú breyting á sveitfestinni, sem nú er á leiðinni, þá væri þeim mun meiri ástæða til, að þetta næði fram að ganga.

Þá vildi hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) telja það sem aðalástæðuna fyrir aðsókninni til Reykjavíkur, hve kaupgjald væri hátt hjer. En þetta er ekki aðalástæðan. Aðalástæðuna tel jeg, hvernig fólkið flæmist af sveitabýlunum, og ætti hv. þm. að íhuga hvað það er, sem því veldur. Jeg skal einnig benda á það, að með Goðafossi í vetur, með sömu ferð og þm. komu, var fjöldi fólks til að leita sjer atvinnu. Stafaði þetta þó ekki af því, að ekki væri nóg að gera þar, sem þeir voru. Þar var hlaðafli daglega. En verslun var þar svo ill, að fólkið hjelst þar ekki við. T. d. var þar borgað fyrir 1 pd. af fiski inn í verslun 8 aurar, og varð að taka út á það rándýrar útlendar vörur. Heyrt hefi jeg líka, að atvinnurek endur hjer hafi sent smala sína út um öll nes, til að fá fólk til vinnu hingað, þótt nóg væri hjer af atvinnulausum mönnum fyrir. Myndu þessir menn þá ekki geta talist einn hlekkurinn, og ekki sá veigaminsti, í þeirri orsakakeðju, sem dregur fólkið til Reykjavíkur.

Hv. þm. (JÞ) byrjaði ræðu sína á því, sem jeg skal nú enda á, að ekki væri furða, þótt stjórnin hefði tekið vel í till. mína, þar sem jeg væri hennar helsti stuðningsmaður. En hv. þm. má þar um trútt tala. Var það ekki hann einn af öllum þm., sem varði stjórnina eldhúsdaginn? Hann hljóp fram fyrir skjöldu og barðist fyrir hana í Íslandsbankamálinu. Og svo nátengdur stjórninni er hann, að nú hefir stjórnin fengið hann til að bera fram frv. fyrir sig. Eftir öllu þessu að dæma hygg jeg, að hv. þm. (JÞ) sje meiri stuðningsmaður stjórnarinnar en jeg. (BJ: Áður en haninn galar tvisvar o. s. frv.).