09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í D-deild Alþingistíðinda. (3274)

156. mál, atkvæðagreiðsla alþingiskjósenda um útsölustaði áfengisverslunarinnar og vínveitingaleyfi

Magnús Jónsson:

Hv. 2. þm. Reykv. (JB) þóttist ekki skilja afstöðu mína. Jeg á við það, að þar sem við höfum fengið loforð fyrir bestu tollkjörum á Spáni, sem er einsdæmi, þá er það aðalatriði fyrir okkur, úr því við neyddumst á annað borð til þess að láta undan, að halda þessum kjörum áfram, og því aðalatriði megum við ekki spilla með því að gera neitt í öðrum atriðum, sem minna eru verð, þótt þau sjeu góð í sjálfu sjer, sem gæti gefið Spánverjum ástæðu til þess að „yfirvega málið“ á ný, sem kallað er, eða reyna að kippa aftur þessu aðalatriði um bestu tollkjörin. En við megum eiga það víst, að Spánverjar muni ekki sjerlega glaðir yfir því að láta okkur hafa þessa sjerstöðu, og því hætt við, að þeir tefli á fremsta hlunn með lögskýringarnar, til þess að losna. Tilefni til þess vil jeg ekki gefa að óþörfu. Hitt get jeg ósköp vel fallist á, að gott væri að gera ráðstafanir til að skerpa að ýmsu leyti lögin, eins og þau eru nú, t. d. banna læknavínið alveg o. fl.