08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í D-deild Alþingistíðinda. (3289)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Bjarni Jónsson:

Það er rjett að grípa tækifærið til að hrósa stjórninni fyrir það, er hún hefir hjer gert, því vera má, að jeg megi síðar láta það vera. Hefir hæstv. forsrh. (SE) unnið vel að þessu máli og hefir lýst því yfir, að hann vilji vinda bráðan bug að því. Vil jeg, áð málinu sje vísað til stjórnarinnar með hvetjandi orðum frá þinginu. En vekja vil jeg athygli á því, að það er ef til vill of fast að orði kveðið í till., að verkið skuli framkvæmt á þessu ári, því vera má, að svo standi á, að það verði ekki unt heldur á næsta ári. Er jeg sammála hv. þm. Borgf. (PO), að þetta þurfi að gerast sem fyrst. Hefi jeg æ verið honum sammála í þessu máli, er hann hefir lengst farið. En það skildist mjer, að honum væri ekki á móti skapi, að þessu væri vísað til stjórnarinnar, ef hvatningarorð fylgdu.

En minna vil jeg stjórnina á það, að legið hafa fyrir tilboð um kaup á strandvarnarskipi, ódýru og góðu, eftir lýsingum að dæma, og ætti hún að athuga þessi tilboð vel og með gætni og kaupa heldur skip en láta byggja, ef hagkvæmara sýndist. Stóð jeg aðallega upp til að minna hæstv. stjórn á þessi tilboð.

En eigi skipið að vera jafnframt björgunarskip, þá verður að byggja skipið, því að þá verður gerð skipsins að vera öll önnur. Vil jeg svo að síðustu leggja áherslu á það, að máli þessu verði vísað til stjórnarinnar, í því skyni, að hún leggi alt kapp á að hrinda þessu máli fram sem fyrst.