25.04.1923
Efri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í D-deild Alþingistíðinda. (3322)

146. mál, prestsþjónusta í Mosfellsprestakalli

Flm. (Jónas Jónsson):

Yfirlýsing sú, er hæstv. forsrh. (SE) bauð að gefa, er vitanlega mikið spor í áttina, því að tilgangurinn með tillögunni var aldrei annar en sá, að reyna að koma þjónustu þessa prestakalls sem haganlegast fyrir, án mikils kostnaðar. En sá tilgangur næst ekki með því að láta prestakallið halda sjer, eins og hv. 4. landsk. þm. (JM) vildi. Annars held jeg, að misskilningurinn, sem hann var að tala um, sje annarsstaðar en hjá mjer, því að ekki er hægt að láta prestakallið halda sjer, nema með því að stofna nýtt embætti, eins og hv. 2. þm. G.-K. (BK) vildi.

Annars mun jeg ganga að því að taka tillöguna aftur, ef hæstv. stjórn vill lýsa yfir því, að hún skuli semja um þjónustu prestakallsins á þeim grundvelli, sem tillagan er bygð á.