14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í D-deild Alþingistíðinda. (3394)

32. mál, landsspítali

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvinsson):

Jeg verð að segja það, að svar hæstv. forsrh. (SE) var ekki neitt sjerlega glæsilegt. Og það hljóta að verða mönnum vonbrigði, að stjórnin skuli ekki sjá neina möguleika til framkvæmda nú, annaðhvort á byggingu nokkurs hluta spítalans eða alls. Margir líta þó svo á, að byrja megi í allmiklu smærra stíl en nefndin gerir ráð fyrir. Hæstv. ráðherra (SE) gerði mikið úr fjárhagsörðugleikunum og sagði, að þeirra vegna væri nú ekki unt að segja, hvenær unt væri að byrja. Með þessu er málinu í rauninni skotið svo langt fram fyrir sig, að möguleikarnir eru engir sjáanlegir. Það sem jeg vildi hjer stuttlega benda á og leggja áherslu á, er samband þessara framkvæmda við það ástand, sem nú er hjer ríkjandi, og þá einkum við atvinnuleysið. Jeg vil þar fyrst benda á það, að þó fjárhagurinn sje erfiður nú, er það ekki útilokað, að hann geti orðið enn þá erfiðari og atvinnuástandið í landinu versni. Og það getur verið, að einmitt hið erfiða ástand neyði til framkvæmda í þessu og öðru — og hvað á þá að gera? Jeg hefi ennfremur áður bent á það, að unt væri að bæta í þessu sambandi úr tveimur vandamálum í senn, sem sje að bæta úr hinu sára atvinnuleysi og að koma upp spítalanum, og það blátt áfram með því að láta vinna að spítalanum nú, meðan fólk er atvinnulaust hvort sem er. Hitt getur auðvitað komið til mála líka, að láta vinna á þennan hátt að Kleppsbyggingunni, sem hæstv. forsrh. (SE) sagði, að stjórnin hefði lofað að láta ganga fyrir landsspítalanum. Jeg sje ekki annað en að það sje þjóðarhagur að fá þannig bætt úr atvinnubrestinum. Jeg legg því áherslu á það, að rjett og sjálfsagt sje að gera alt, sem unt er, til þess að láta byrja á verkinu þegar á þessu ári. Með því er gert tvent í einu, flýtt fyrir nauðsynjafyrirtæki og bætt úr atvinnuleysisbölinu.

Vænti jeg þess, að hæstv. stjórn taki þetta á ný til athugunar, því mjer þykir leitt, hvað svör hennar eru óákveðin og engu betri en á síðasta þingi, — en við svo búið má ekki standa lengur.