13.03.1923
Neðri deild: 19. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í D-deild Alþingistíðinda. (3498)

53. mál, sjómælingar

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Ef hv. flm. (JAJ) hefði komið til mín á embættisskrifstofu mína, hefði hann getað fengið fullnægjandi upplýsingar um þetta og þáltill. þá orðið óþörf. En jeg er honum samt þakklátur fyrir að hafa komið með hana, því að það gefur mjer tilefni til að skýra frá, hvað jeg hefi gert í málinu.

Undir þinglokin í fyrra kom fram í sameinuðu þingi samskonar till. og þessi frá þessum hv. þm. (JAJ), og auk þess önnur till. frá hv. 2. þm. Húnv. (ÞórJ) og 3. þm. Reykv. (JÞ), um að mæld yrði skipaleiðin meðfram Vatnsnesi inn á Hvammstanga. Einnig kom till. frá hv. þm. Str. (MP), um mælingu skipaleiðar á Bjarnarfirði og Kollafirði. Þessar tillögur komu aldrei til umræðu, því jeg ljet þess getið við flutningsmenn þeirra, að jeg mundi gera það, sem hægt væri í málinu, þótt ekki gengju þær lengra.

Þá kom einnig áskorun frá bæjarfógetanum hjer í Reykjavík um að mæla svokallaðan Kötlutanga. Hefir hann myndast við gos úr Kötlu og valdið mjög miklum breytingum þar eystra. Hafa skipströnd orðið vegna þessa, og meðal annars komið kvartanir frá Þýskalandi um, að sjómælingarnar þar væru ekki svo nákvæmar sem skyldi.

Í fimta lagi kom beiðni um það að austan, að mælingar væru gerðar við Hallgeirsey, sjerstaklega viðvíkjandi innsiglingu og skipalægi þar. Um öll þessi atriði talaði jeg við foringjann á varðskipinu, og tók hann vel í málið, sjerstaklega hvað viðkom mælingum við Kötlutanga. En svo atvikaðist, að honum varð þetta ekki mögulegt, því að skipið varð að fara til Grænlands og kom ekki þaðan fyr en í byrjun síldveiðitímans. Tilkynti hann mjer það með brjefi 1. júní, að hann gæti ekki mælt Kötlutanga á því sumri. Síðan skrifaði hann flotamálastjórninni dönsku um þetta, og einnig skrifaði jeg samtímis sendiherra vorum í Khöfn og bað hann að fá áætlanir hjá flotamálastjórninni um verkið, og helst að fá hana til að framkvæma það. Flotamálastjórnin svaraði 14. ágúst og kvað varðskipið ekki geta gert þetta í ár, en á næsta ári mundi mega framkvæma allar nefndar mælingar, er nánari áætlanir væru gerðar. Jafnframt getur hún þess, að skipið Þór muni vera hentugt til þess að framkvæma þessar mælingar. Hún bauðst til að gera áætlanir, og komu þær hingað með brjefi sendiherra 3. febr. þ.á., en þá voru fjárlögin fyrir löngu tilbúin, en fjáraukalög lágu engin fyrir, svo að um enga fjárveitingu til þessa var að ræða.

Plögg þessi hefi jeg afhent öll til hv. sjávarútvegsnefndar, og vil jeg nú víkja nánar að einstökum atriðum.

Um Þaralátursfjörð segir flotamálastjórnin, að ekki nægi, að mælt sje við Hornstrandir, heldur þurfi að mæla alt út á svokallaðan Strandabreka. Þetta segir hún að megi gera á 16 dögum, ef veður sje gott, en sökum þess, að þar sje mjög stormasamt, megi tæplega gera ráð fyrir styttri tíma en 48 dögum. Jafnframt getur hún þess, að mælingar þessar geti skipið Þór vel gert með aðstoð tveggja mótorbáta.

Að mæla Kollafjörð og Bjarnarfjörð telur hún 10 daga verk og sjóleiðina meðfram Vatnsnesi til Hvammstanga 6–8 daga.

Kötlutanga segir hún, að varðskipið skuli mæla á næsta sumri, og er því ekki meira um það að tala.

Um Hallgeirsey segir hún, að enga áætlun sje þar hægt að gera, því að kortið sje svo ónákvæmt og henni staðurinn ekki svo kunnugur.

Fyrstu 3 mælingamar telur hún, að muni kosta um 60 þús. kr.; þar í ekki talið kaup þeirra manna, er hún leggur sjálf til, og ekki er heldur talinn þar kostnaður við verkfæralán, er Orlogsværftet leggur til. Þetta hvorttveggja er ókeypis. Þessar mælingar álítur hún og, eins og jeg fyr sagði, að Þór geti framkvæmt á 21/2 mánuði með aðstoð tveggja mótorbáta.

Ef þessar 60 þús. kr. eru til taks, má því strax framkvæma þetta, en spurningin er bara, hvort þingið vill veita fjeð. En mitt álit er það, að þetta megi betur bíða heldur en margt annað, sjerstaklega margir símarnir, sem hin mesta þörf er á. Mundi jeg ekki hafa sett þetta í fjáraukalagafrv., þótt um það hefði verið að ræða, því jeg tel margt annað nauðsynlegra.

Jeg held því, að þáltill. sje nú orðin óþörf, að minsta kosti í þessu formi; ef henni verður haldið áfram, þyrfti hún að miða til þess að heimila stjórninni að verja fje til þessara mælinga.

Annars liggja öll skjöl þessu viðvíkjandi hjá hv. sjávarútvegsnefnd, og vísa jeg til þeirra.