09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (3505)

24. mál, fjáraukalög 1922

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Háttv. frsm. (EÁ) kvartaði yfir því, að ekki hefðu verið lögð fram skjöl viðvíkjandi þeim málum, sem frv. fjallar um, en það er víst, að viðvíkjandi tveim þeirra hafa verið send hingað skjöl og önnur hafa verið boðin fram. Nefndin í Nd. hafnaði að minsta kosti skjölum viðvíkjandi mómýrauppdráttakaupunum og sagðist hafa sjeð þau nógu oft, sjer til leiðinda. Ef nefndin í þessari háttv. deild hefir meira gaman af þessum skjölum, þá er velkomið að hún fái þau. Þá hefir verið spurt um, hvort seljandi mundi hafa unnið mál, ef hann hefði höfðað það út af þessu, en jeg held, að svo hefði áreiðanlega ekki orðið. Háttv. 4. landsk. þm. (JM) upplýsti, að Pjetur heitinn Jónsson hafi aðeins lofað meðmælum sínum, og get jeg vel trúað, að svo hafi verið. En um þetta vissi stjórnin ekki. Einar Benediktsson hjelt því fast fram, að um fast loforð til kaupa hafi verið að ræða, og þóttist gabbaður, ef kaupin gengju ekki saman. Jeg rjeðist því í kaupin, en hitt var mjer ljóst, að seljandi hefði ekki unnið málið fyrir dómstólum. Það hefði ekki komið til mála. Annars er mjer sjálfum eðlilega alveg ókunnugt um þetta mál, en hlutaðeigandi skrifstofustjóri hefir samið athugasemdirnar hjer að lútandi.

Háttv. 5. landsk. þm. (JJ) mintist á ábyrgðina fyrir Reykjavíkurbæ, og mjer skildist, að hann væri henni ekki með öllu samþykkur. En það var óhjákvæmilegt að ganga í þessa ábyrgð. Lánið var bænum bráðnauðsynlegt og kjörin ágæt. Jeg er háttv. þm. sammála um það, að það hafi verið ósanngjannt að neita landinu að breyta Nýborg, og það hefir bakað ríkissjóði mikið tjón. Jeg tók þetta fram við borgarstjóra, en hann hafði gert sitt ítrasta til þess, að leyfið yrði veitt, og var því ekki rjett að neita honum um lánið eða láta bæinn í heild sinni gjalda þessarar undarlegu ósanngirni einstakra manna.

Um vald fjárveitinganefndanna skal jeg geta þess, að jeg er háttv. þm. (JJ) sammála. Þessi vani er frá stríðsárunum, eins og hæstv. forsrh. (SE) tók fram, en nú er hann að leggjast niður. Sjerstaklega skal jeg benda á, að stjórninni er enginn styrkur í því að leita til nefnda nú, þar sem kosningar standa fyrir dyrum og óvíst er, hvort þá verða sömu menn í þessum nefndum. Þessi vani er því nú að verða „en Saga blot.“ og á líka að vera það.