17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

83. mál, fræðsla barna

Magnús Jónsson:

Hv. mentamálanefnd hefir ekki viljað fallast á frv. óbreytt. Samt sem áður vil jeg þakka nefndinni, að hún hefir nokkuð komið á móti mjer í því að gera prestum mögulegt að vera prófdómarar. Jeg skil þá háttv. þm. þannig, sem eru á móti frv. og vilja ekki greiða atkv. með þeirri breytingu, sem nefndin hefir gert á því, — jeg skil þá svo, að þeir leggi á móti því, að prestar verði prófdómarar, og vilji losna alveg við þá til þess starfs.

Þegar þetta mál er sótt af svo miklu kappi, þá er teflt á fremsta hlunn með að nota sjer vilyrði, sem þeim var veitt á þinginu í fyrra, um að koma sjer hjá að verða prófdómarar. Annars skal jeg ekki svara háttv. þm. Borgf. (PO); hann var að klifa á því eins og áður, að prestum væri skylt að hafa á herðum sjer eftirlitið, þó að öll skynsamleg rök mæli á móti því; og það getur hver maður sjeð, sem les fræðslulögin.

Háttv. frsm. (SSt) gat þess rjettilega, að prestar vildu vera við barnaprófin. En þeir geta nú ekki gert alt, sem þeir vilja, fremur en háttv. þm. Borgf. (PO), þegar hann greiðir atkvæði á móti öllum fjárstyrkjum; þá segir hann venjulega, að það sje ekki hægt að gera alt, sem maður vilji.

Jeg tel það vafalaust, að atkvæði þeirra þm., sem verða á móti frv., sýni, að þeir vilja bola prestunum frá því að vera prófdómarar.