17.04.1923
Neðri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

83. mál, fræðsla barna

Þorsteinn Jónsson:

Það vill svo vel til, að við háttv. þm. Borgf. (PO) erum sammála um að fella þetta frv. Hann vill vefengja það, sem jeg sagði um frv. til breytinga á fræðslulögunum, sem samþykt var á síðasta þingi. Hann sagði, að þær breytingar hefðu verið spor í rjetta átt og til bóta. Jeg veit, að háttv. þm. er áttaviltur í fræðslumálum. Jeg hefi heyrt þá þjóðsögu, að ef viltur maður kæmi að straumvatni, þá sýndist honum vatnið renna í öfuga átt við það, sem það rennur í raun og veru. Eins er það um háttv. þm. (PO); hann sjer ekki, hvert straumurinn stefnir í fræðslumálum þjóðarinnar; þar er hann svo gersamlega áttaviltur.