09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

24. mál, fjáraukalög 1922

Forsætisráðherra (SE):

Jeg er sammála háttv. 5. landsk. þm. (JJ), að það sje sjálfsagt, að það, sem húsagerðarmeistari vinnur fyrir aðra og unnið er á skrifstofutíma hans, gangi í ríkissjóð. Ákveðið hefir verið t. d. að krefjast þess, að Landsbankinn greiði fyrir vinnu hans við Landsbankahúsið, og verður því fje varið til þess að greiða skrifstofukostnað hans og fleira.

Þá kem jeg að prestssetrinu á Mælifelli. Jeg veit, að það er of dýrt að reisa prestssetur fyrir 30 þús. kr., og það þó að aðeins sje tekið tillit til prestsins. Leigan verður eða 1200 kr., og prestar hafa ekki laun til þess að greiða svo háa húsaleigu. Og jeg skal upplýsa það, að enn er ekki búið að ákveða, hvað presturinn skuli greiða. En þessi mikli kostnaður stafar aðallega af dýrum flutningi. Á öðru prestssetri hefir einnig brunnið, og þarf að reisa af nýju. Það er á Dvergasteini. Jeg hefi heitið prestinum 10 þús. kr. láni og 5 þús. kr. styrk. Jeg álít, að prestssetur megi varla kosta meira. vegna húsaleigunnar.

Jeg er sammála háttv. þm. (JJ) um, að nauðsynlegt sje að hafa mann í London. Um sendiherrann vil jeg taka það fram, að nafnið er meira en formsatriði, því að þeir, sem eru sendiherrar, eiga alstaðar aðgang að og geta talað og samið við þá menn í hverju ríki, sem ráða mestu, og er það ólíkt hægari aðstaða en að verða að snúa sjer til undirmanna þeirra. Mjer þótti vænt um, hvað hv. þm. (JJ) sýndi mikinn skilning á því, að nauðsyn bæri til að gera mikið fyrir utanríkismálin, og jeg held, að okkur beri ekki svo mikið á milli í raun og veru. Jeg er honum sammála um það, að þessir menn þurfa að læra heimsmálin og venjast við þau störf, sem þeim verða falin.

Viðvíkjandi sendiherra okkar í Danmörku vil jeg geta þess, að hann hefir orðið okkur að mjög miklu liði. Hann hefir verið sendur í fleira en eitt land. t. d. til Spánar og Englands, og nú síðast til Noregs, vegna kjöttollsins, og þar hefir hann sýnt mikla festu, eins og skjöl málsins munu sýna, þegar þau verða lögð fram.

Sammála er jeg háttv. þm. (JJ) um það, að ekki sje heppilegt að fá aðeins tillögur fjárveitinganefnda um ýms mál, en leita ekki til þingsins. Mun þetta stafa frá stríðsárunum, þegar eðlilega varð að gefa svo fljót svör, að ekki vanst tími til að snúa sjer til alls þingsins, en sjálfsagt er að bregða sem fyrst frá þessum vana.

Um ábyrgðina fyrir Reykjavíkurbæ hefi jeg lítið að segja. Þörfin var svo mikil og kjörin svo góð, að sjálfsagt var að veita ábyrgðina. Það hefði líka að sjálfsögðu verið leitað til þingsins, ef tími hefði unnist til þess. En auðvitað var sjálfsagt að leita samþykkis þingsins á eftir.