18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

24. mál, fjáraukalög 1922

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Eins og háttv. þdm. sjá, hefir engin brtt. komið frá fjvn. við frv. þetta nú, enda hefir það mjög lítið breyst í háttv. Ed. Gjöldin hafa aðeins lækkað um 100 krónur, og svo hefir ábyrgðarheimild til handa landsstjórninni út af láninu til Reykjavíkurbæjar bæst við. En það er eitt atriði í nál. hv. Ed., sem jeg vil leiðrjetta. Í nál. stendur, að nefndin sje algerlega ósammála þeim ummælum í nál. fjvn. Nd., er lúta að því að hvetja stjórnina til þess að setja upp utanríkismálaskrifstofu til að líta eftir verslunar- og markaðshorfum í útlöndum. Þessi ummæli háttv. fjvn. Ed. eru bygð á algerðum misskilningi. Í nál. fjvn. hjer eru engin ummæli, er ætla megi að sjeu hvöt til landsstjórnarinnar í þessa átt. Með leyfi hæstv. forseta skal jeg lesa upp það, sem nál. segir um fjárveitinguna til Verslunarráðsins. Þar stendur svo, að nefndin telur stjórnina eiga að hafa á hendi, og þá utanríkisráðuneytið, það verk, er þessi fjárveiting var veitt til, og „vill nefndin því brýna fyrir stjórninni, að hún láti ekki undir höfuð leggjast að hafa ætíð á takteinum ábyggilegar fregnir og skýrslur, er varða markað og markaðshorfur fyrir afurðir vorar og fleira, er þar að lýtur.“ Eins og háttv. þdm. sjá, er hjer ekki verið að fara fram á, að nein ný skrifstofa sje sett á stofn. En fjvn. vill enn sem fyr undirstrika, að þetta er skylda stjórnarinnar. Mun það heyra undir dómsmálaráðuneytið, og tel jeg sjálfsagt, að það geti framkvæmt það án aukins mannahalds, auk heldur án nýrrar skrifstofu.