18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

24. mál, fjáraukalög 1922

Pjetur Ottesen:

Það er gott, að hæstv. stjórn hefir látið sjer að kenningu verða aðfinslur þær, er gerðar voru hjer í hv. deild út af ábyrgðinni fyrir Reykjavíkurbæ. Það leit út fyrir, að hæstv. stjórn ætlaði ekki að láta sjer nægja að veita ábyrgðina án leyfis þingsins, heldur ætlaði hún heldur ekki að leita samþykkis þingsins eftir á. En nú hefir hún bætt úr þessu, og tel jeg það vel farið, enda munu með þessu láni hafa verið fyltar 5 miljónirnar, eða vel það, sem ríkið stendur nú í ábyrgð fyrir fyrir Reykjavíkurbæ.