20.02.1923
Neðri deild: 3. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Baldvinsson:

Háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) mintist á, að atvinnuvegir vorir stæðu enn föstum fótum, og þykir mjer vænt um að heyra það, því í kaupdeilum þeim, sem staðið hafa hjer undanfarið, hafa hinir stærstu atvinnurekendur hjer haldið því fram í mín eyru, að atvinnuvegirnir borguðu sig ekki, og kaup þyrfti því að lækka. Mjer er því mikið gleðiefni að heyra þessa yfirlýsingu fulltrúa þeirra hjer á þingi, og sýnir það betur en nokkuð annað, að þá er líka algerlega órjettmæt sú krafa þeirra, að kaup verkafólks eigi að lækka vegna þess, að atvinnuvegirnir borguðu sig ekki.