09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Baldvinsson:

Jeg get eigi neitað því, að mjer þótti jeg beittur allmikilli harðneskju við framhaldsumr. fyrir 2 dögum, er mjer var meinað að taka til máls, enda þótt jeg hefði beðið um orðið áður en hæstv. forseti sleit umræðum. En nú er eigi kostur á slíkum umræðum sem á eldhúsdegi. Jeg skal taka það fram, að það var eigi sá hæstv. forseti (ÞorlJ), sem nú situr í forsetastóli, sem beitti mig því ofbeldi, sem jeg mintist á.

Jeg mun þó geta leitt út af ýmsum liðum fjárlagafrv. ýmislegt það, sem jeg vildi sagt hafa, þá er mjer var varnað máls. Jeg hafði hugsað mjer að koma fram með nokkrar almennar athugasemdir, en hv. þm. Borgf. (PO) hefir nú gert það, og skal jeg eigi endurtaka það; býst jeg við, að mönnum muni leiðast það. Jeg tek það alveg trúanlegt, sem hv. frsm. fjvn. (MP) sagði, að það sje ekkert skemtilegt verk að vera í fjvn., enda þótt nógir fáist til þess. Get jeg trúað því, að leiðinlegt sje að þurfa að skera við nögl sjer hinar nauðsynlegustu fjárveitingar og hafna öðrum.

Vjer Íslendingar höfum enn eigi komið því skipulagi á fjármál vor sem aðrar þjóðir, enda þótt vjer ættum eigi að standa ver að vígi en þær, þar sem vjer þó erum lausir við ýmisleg útgjöld, sem þær verða að hafa, svo sem t. d. herkostnað. Úgjaldaliður þessi er mjög stór hjá sumum þjóðum, og það jafnvel stærsti liðurinn í útgjöldum þeirra. Þó vantar mjög mikið í fjárlög vor, sem aðrar þjóðir telja nauðsynlega liði í fjárlögum allra þjóða, sem menningarþjóðir vilja kallast. Má til dæmis nefna allan styrk og hjálp til almennings, sem mjög er af skornum skamti í fjárlögum vorum. Til slysatrygginga verkamanna er annarsstaðar veitt stórfje, en mjög er slíkt í smáum stíl í fjárlögum vorum. Er það aðeins ein stjett manna, sem sje sjómennirnir, sem njóta nokkurs styrks í þessu skyni; öðrum stjettum er enginn slíkur styrkur veittur, nema hvað einstaka fjelög fá sáralitla hjálp. En að þessu sinni hefir hvorki hæstv. stjórn nje fjvn. sjeð sjer fært að koma slíkum styrk inn í fjárlögin, en jeg vona, að þess verði eigi langt að bíða, að vjer fáum einhvern vísi til slíks í fjárlögum vorum.

Þá er það eitt enn, sem á síðustu tímum er orðinn töluverður útgjaldaliður með öðrum þjóðum, en það er atvinnuleysisstyrkur. Því miður er það að verða nauðsynlegt hjá okkur að veita slíkan styrk, en fjárlögin sýna það, að hingað til hefir lítið verið lagt af mörkum til þess að styrkja efnaminstu stjett landsmanna. Hefir fje landsins aðallega gengið til starfsmannalauna. Auðvitað hefir verkalýðurinn notið góðs af því litla, sem til verklegra framkvæmda hefir verið varið, að því leyti, sem það hefir aukið atvinnu.

Þá vildi jeg minnast á nokkur atriði í fjárlagafrv. Jeg hafði rekið augun í hið sama og háttv. þm. Borgf. (PO), sem sje 19. gr. En þetta er víðar en hann sá. Laun sendiherrans eru einnig greidd í dönskum krónum. Þessi póstur er því nokkuð óákveðinn, því að þessi lögmæltu laun geta breyst töluvert mikið, ef gengismunurinn er mikill. Því eru í rauninni eigi rjettar fjárhæðir sýndar hjer, og verða það aldrei með þessu móti. Hvað snertir hin erlendu lán, þá er sterlingspundið miklu hærra nú en þegar fjárlögin voru samin, og afborganirnar því hærri en gert er ráð fyrir í lögunum; aftur hefir danska krónan hækkað, svo að það jafnast nokkurn veginn. Jeg sje líka, að eigi eru allar greiðslur ríkisins af lánum þess útgjaldamegin; aðeins af þeim hluta enska lánsins, sem ríkið tók. En það er þó ríkið, sem á að standa skil á greiðslunum, og því væri ástæða fyrir hv. fjvn. að athuga, hvort eigi væri rjett að setja útgjaldamegin greiðsluna af öllu láninu, en aftur tekjumegin það, sem kemur frá bönkunum. Það er vitanlegt, að mestur hluti enska lánsins fór til Íslandsbanka, og því er það æðiundarlegt, sem kom fram í umræðunum á eldhúsdaginn, að bankaráðið dregur dul á alt, sem gert hefir verið, og að ómögulega má segja þinginu neitt af högum bankans. — Jeg spurði um það við framhald 1. umr. fjárlagafrv., hversu há eftirlaun Tofte bankastjóri hefði fengið, er hann fór frá. En hæstv. forsætisráðherra svaraði því ekki. Jeg staðhæfi nú, að þessum bankastjóra hafi að minsta kosti verið greiddar 70 þús. danskar krónur, er hann fór frá. Virðist mjer þetta koma landinu eigi alllítið við, því að slíkar ráðstafanir á fje bankans sem þessi veikja auðvitað gjaldþol hans.

Af fjárlögunum sjest, að það er eigi lítið, sem ríkið kaupir af eldsneyti handa stofnunum sínum. Get jeg því vikið að því, sem hæstv. atvrh. (KIJ) svaraði upp á fyrirspurn mína á eldhúsdaginn, um kolakaup landsstjórnannnar á síðastliðnu sumri, og hvers vegna stjórnin hefði eigi látið þau kaup ganga í gegnum Landsverslunina.

Hæstv. atvinnumálaráðherra sagðist helst ekki hafa haft heimild til að kaupa kol í gegnum Landsverslunina, og bar hann fyrir sig í því efni þingsályktunartillögu frá síðasta þingi, sem hann sagði, að hefði verið samþykt með rökstuddri dagskrá, en þingsályktunartillaga þessi var frá meiri hluta viðskiftamálanefndar og gekk út á það að láta Landsverslunina halda.

En það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra (KIJ), að þessi tillaga hafi verið samþykt; hún var einmitt feld með rökstuddri dagskrá, sem var ekki eins sterklega orðuð og þingsályktunartillagan.

En jafnvel þótt tillagan hefði verið samþykt, þá gat hæstv. ráðherra (KIJ) engan veginn borið hana fram sem vörn í þessu máli.

Hjer var ekki um það að gera að flytja inn kol til þess að halda uppi almennri kolaverslun, heldur var hjer aðeins um það að ræða að kaupa kol handa þeim stofnunum ríkisins, sem ríkissjóður þarf að sjá fyrir eldsneyti.

En er það ekki alt annað að kaupa kol til nauðsynlegra þarfa ríkisins en að halda uppi kolasölu Landsverslunar til almennings?

Eða kannske Landsverslunin megi alls ekki kaupa kol einu sinni til eigin þarfa ? Það mætti þá líklega alveg eins vel leiða út úr þessari ályktun þingsins.

Hæstv. atvinnumálaráðherra lýsti yfir því við umræðurnar í fyrra, að hann mundi ekki láta Landsverslunina halda áfram, nema hann sæi, að fara ætti að einoka einhverja vörutegund eða verðið á henni væri óþarflega hátt.

Nú er það sannað, með yfirlýsingu hæstv. atvinnumálaráðherra sjálfs, að honum hefir fundist kolaverðið í fyrra vera óþarflega hátt, og þá var hann alveg í samræmi við yfirlýsingu sína, ef hann hefði látið Landsverslunina grípa inn í kolaverslunina, og jeg álít líka, að það hefði verið hyggilegra að láta Landsverslunina halda áfram að versla með þá vörutegund heldur en að stöðva verslun hennar með þá vöru, eins og gert var.