09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg þarf ekki að vera langorður, enda er hæstv. forsætisráðherra (SE) fjarverandi; en honum ætlaði jeg að svara nokkrum orðum, út af fjárveitingu til sjúkrahúss á Ísafirði. Jeg vil benda á, að sleginn er varnagli við því í brtt. nefndarinnar, að ekki verði ráðist í að byggja sjúkrahúsið, nema trygging sje fengin fyrir, að fje sje fyrir hendi og einnig styrkur til rekstrar sjúkrahússins.

Jeg er sammála hæstv. forsrh. (SE) um, að rjettara sje að veita alla upphæðina í einu; en fjárveitinganefnd hefir tjáð mjer skiljanlegar ástæður fyrir till. sinni. Og því aðeins tek jeg við þessari fjárveitingu, að þm. skoði sig skuldbundna til að greiða atkvæði með framhaldsfjárframlögum í þessu skyni, því annars væru Ísfirðingar teygðir út í ófæru með þessari 25 þúsund króna fjárveitingu, því að hún er algerlega ófullnægjandi. (Nokkrir þm.: Hverjir geta lofað því á næsta þingi?). Jeg vona, að háttv. þingmenn örvænti ekki um að komast á þing aftur.

Úr því að jeg stóð upp, vil jeg minnast á sameiningu póstafgreiðslu- og símastjórastarfa. Þessum sparnaðartillögum er jeg sammála. Það eru ósköp til þess að vita, að dugandi menn sjeu bundnir allan daginn við lítil störf fyrir ljeleg laun.

Enginn vafi er á því, að þessi störf, sem nefnd hafa verið, geta farið saman á mörgum smærri stöðum. Enda er það eigi haganlegt nje rjett að binda 2 menn við störf, sem einn gæti leyst af hendi.

Þá var það tillaga háttv. nefndar um loftskeytastöð í Grímsey og Húsavík. Jeg hefi ekki enn getað skilið ástæðu nefndarinnar fyrir að hafa stöðina á Húsavík. Jeg átti í gær tal við marga útgerðarmenn, og voru þeir undrandi yfir þessari tilhögun, ef það er vilji þingsins, að loftskeytastöðin komi útgerðinni að notum.

Öllum er kunnugt, hversu símasambönd eru erfið við Siglufjörð, svo að ekki er unt að ná þangað dögum saman; hinsvegar gengur betur að koma skeytum og samtölum frá Siglufirði. Ef í þessu máli á að líta á hag sjávarútvegsins, þá er gersamlega óforsvaranlegt að hafa ekki loftskeytastöðina í Grímsey í beinu sambandi við Siglufjörð.