10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

1. mál, fjárlög 1924

Bjarni Jónsson:

Mjer þykir leiðinlegt að þurfa að kljúfa hinn fríða hóp, sem fengist hefir við fjárveitingar í Nd. á þessu þingi. En mjer var ómögulegt annað, því að andans ríki var svo afskift, að ekki var við unandi. Öll upphæðin, sem ráðgert er að veita til andlegra menta, er ekki meira en sem svarar fjárveitingu til eins vegarspotta. En nú ætla jeg að sýna það, að hver dregur dám af sínum sessunaut, og koma ekki fram með nema svo sem 1/10 af því, sem jeg þyrfti að koma með. Geri jeg það í þeirri von, að koma með því einhverju fram. Þá skal jeg minnast örfáum orðum á sumar brtt. mínar.

Þá er fyrst brtt. við 14. gr. Hún er klipin aftan af öðrum lið af fjáraukalögum, sem jeg samdi, er jeg tók að mjer stjórnina á dögunum. Jeg tek hana aftur nú, en kem með hana sem brtt., er stjórnin kemur með sín fjáraukalög. Hjer er um að ræða 500 kr. launaviðbót til eins prófessoranna við háskólann, Sigurðar P. Sivertsens. Er farið fram á, að hann fái að njóta sömu launauppbótar sem hann hefði altaf verið prófessor, og er þetta þá síðasta launabót hans. Jeg hafði reiknað launauppbótina of háa um 300 kr., og því tek jeg þessa till. aftur nú, en mun mæla frekar með þessari sjálfsögðu og sanngjörnu kröfu, er fjáraukalögin verða til umræðu.

Þá kem jeg að námsstyrk stúdenta. Mjer er óskiljanlegt, hvers vegna stjórnin hefir sett svona lága upphæð í frv. sitt. Og ekki varð um þokað í fjvn. að fá hann hækkaðan. Það er vitanlegt, að í fyrra var hann alt of lítill, og síðan hefir stúdentum fjölgað um 1/9; og ekki minkar styrkþörfin við það, að krónan lækkar í gengi og dýrara verður að lifa fyrir það. Því frekar er styrkur þessi ófullnægjandi nú. Háskólakennararnir hafa lagt til, að hann væri 24 þúsund, en í frv. er hann ákveðinn 12 þús. Jeg hugsa að þetta sje yfirsjón, sem stafar af því, að dóms- og kenslumálaráðherrann hafi ekki verið við, er þetta var sett inn í frv., og hafi þá einhver af starfsmönnum hans sett inn sömu upphæð og í fyrra, af því að hann hefir ekki viljað bera ábyrgð á hækkuninni. Eins og jeg gat um áðan, var ekki við það komandi í fjvn. að fá neina hækkun. Hefi jeg því tekið upp þá gullvægu reglu, sem stundum hefir vel gefist, að deila með tveimur. Fer jeg fram á, að styrkur þessi verði 18 þús. í stað 24. Er jeg fer svo hóflega í þetta, þykir mjer líklegt, að þm. samþykki. Það er athugandi, við hverja menn spara, er þeir skera styrk þennan við neglur sjer. Þeir spara ekki við háskólann, þeir spara ekki við stúdentana, heldur við foreldra þeirra, bændur úti á landi, því það er vitanlegt, að styrkur þessi er frekar veittur utanbæjarmönnum. Háttv. þm. vita því ekki, hversu nærri þeir höggva sjálfum sjer með þessum skilningsskorti sínum.

Jeg hverf svo frá þessu; jeg veit, að þm. munu mjer sammála um þetta. Það er öllum Ijóst, að landsmenn eiga landssjóðinn, en ekki þingmenn.

Þá skal jeg minnast á húsaleigustyrkinn. Það er eins ástatt með hann sem hinn styrkinn. Þar hefi jeg og deilt með tveimur og lagt til, að hann yrði 9 þús., í stað 12. í stjfrv. er hann áætlaður 6 þús. Þessar 6 þús. skiftast á milli 73 manna, og koma þá rúmar 82 kr. í hlut. Þeir, sem hafa leigt hjer í Reykjavík, sjá því, hve mikinn hluta húsaleigunnar stúdentar fá greiddan úr ríkissjóði. Það svarar sem næst eins mánaðar leigu með ljósi og hita, ef stúdentinn er heppinn með leigukjör. Þarf ekki að fjölyrða um þetta; menn sjá, hve broslegt það er að veita piltum eins mánaðar húsaleigu úr ríkissjóði. Þá er gengið rösklegar til verks, er verið er að leggja útsvar á mann hjer í Reykjavík. Þá er sjeð um, að maður sje launalaus í 3–4 mánuði á eftir. Hjer er ekki lagst eins djúpt. Jeg vænti þess fastlega, að háttv. þm. fallist á þessa till. mína.

Einnig er jeg viss um, að háttv. þm. fallast á næstu brtt. mína. Mjer er það næsta óskiljanlegt, hvers vegna hv. frsm. (MP) getur verið á móti henni. Jeg veit ekki, hvers konur þær, sem vinna á þjóðmenjasafninu, eiga að gjalda. Jeg veit ekki, hvort það verður álitið, að höfundur þulnanna, kona Skúla Thoroddsens, sje svo ómerkileg kona, að ekki megi gjalda henni sæmilegt kaup. Jeg gæti vel nefnt hinar konurnar líka, til þess að sýna, hversu sparnaður þessi er fáránlegur. Hann gerir fátæku fólki erfiðara fyrir og bakar hneisu þeim, sem fremja hann. Þessi aðstoð er þjóðmenjaverði mjög nauðsynleg. Það er ómissandi fyrir hann að hafa á svona safni fólk, sem hann getur treyst eins og sjálfum sjer, og auk þess er það þjóðinni til sóma að hafa þar kurteist fólk og sæmilegt í framgöngu, er útlendingar koma að skoða söfnin. Jeg veit að allir hv. þm. fallast á þessa litlu hækkun mína.

Þá kem jeg að 15. gr. 22 a, en það er um laun Jóhannesar Lynge Jóhannssonar, er nú um nokkur ár hefir unnið að íslenskri orðabók. Meiri hluti nefndarinnar hefir lækkað laun hans um 1000 krónur úr því, sem stjórnin hafði sett þau, en stjórnin hafði ákveðið þau 7000 kr. En það var rangt. Það verður eigi metið rýrara starf að vinna að samningu vísindalegrar íslenskrar orðabókar en verk það, er þeir kennarar vinna við háskólann, sem á góð í íslensku nefnast prófessorar. En sje nú gengið út frá því, að hann hefði fengið byrjunarlaun þeirra, þá á hann að hafa fengið tvær launahækkanir, og því nú að hafa 8200 kr., ef rjett er reiknað. En jeg hefi nú látið mjer nægja að setja 8000 kr. Jeg skil ekki í því, að menn fýsi að halda því fram, að honum verði gert jafnlágt undir höfði og dýrum þeim, sem dósentar nefnast og allir vita, að hafa svo lítil laun, að enginn getur af lifað. Auk þess er maður þessi að öðru leyti verðleikamaður. Hann hefir þjónað prestsembætti hjer á landi heilan mannsaldur. Hann er nú maður aldraður og á ekki hægt um vik að vinna sjer inn fje utan hjá, enda illa farið, að hann þurfi að gera það. En hann er bláfátækur maður með börn í ómegð. Þótt jeg sje auraglöggur maður og vilji sjá landinu farborða, þá þori jeg þó að halda því fram, að sómi landsins er meira virði en 1000 krónur. En það er hreinn þjóðarósómi, ef þingið vill murka lífið úr fátækum mönnum með því að draga af sanngjörnum og sjálfsögðum launum þeirra.

Þá kemur nýr liður við 15. gr., til Hjálmars Lárussonar 500 krónur. Hjer hefi jeg enn á ný deilt með tveimur, í þeirri von, að þá fengi það frekar að fljóta í gegn. Nú sje jeg, að einn þm. hefir gerst svo, djarfur að hækka þessa upphæð upp í 1000 kr. Tek jeg því mína tillögu aftur og felst á hærri upphæðina.

Þá kemur tillaga um það að veita 2500 kr. til hljóðfæraskóla hjer. Jeg þarf ekki að flytja langa ræðu um það. Sönglistin er sú list, sem hefir átt örðugast uppdráttar hjer á landi. Menn hafa gripið í hana milli verka. En nú er hún að vakna við, og þrá manna til að nema þá list hefir aukist á síðari árum. Menn hafa varið miklu fje til þess að sigla og læra hljóðfæraslátt og söngment, sem vel hefði mátt nema hjer, ef skóli hefði verið hjer. Að þeim skóla er nú stofnaður lítill vísir. Nú er hjer flokkur, sem hefir fengið erlendan söngkennara og bærinn hefir veitt nokkurn styrk. En þetta er aðeins byrjun, og ef þessu á að verða haldið áfram, er sjálfsagt, að landið leggi eitthvað af mörkum. Nú hefir borist brjef frá forstöðumanninum um 5000 kr. styrk. Fjvn. þótti ófært að ganga inn á það, þótt lítið væri. Þá var gert ráð fyrir, að kennarar væru tveir. En til þess að vera viss um, að þetta nái fram að ganga, hefi jeg helmingað upphæð þessa, og þá ekki gert ráð fyrir nema einum kennara. Með þessu móti verður skólinn að vísu þröngur vexti, en stækkun hans verður slegið á frest uns Alþingi verður rífara. Hjer hafa fjelausir menn hafist handa í tómstundum sínum og með því haldið uppi heiðri vorum, svo erlendir menn haldi ekki, að við sjeum rómlaus og sönglaus þjóð. Jeg geng út frá því sem gefnu, að hver maður sje svo heilskygn, að hann greiði atkvæði með þessari litlu fjárhæð, þar sem sanna má, að mikið meira en þessi upphæð græðist í gjaldeyrissparnaði. Hjer eru ekki nema örfáir menn, sem nokkuð eru mentaðir í sönglist; þó margir hafi kynt sjer þetta lítið eitt, þá er það ekki neitt til fullnustu. Sumir kunna nú að brosa í kampinn og þykja lítils um vert, en þessi þáttur listarinnar er einn af fegurstu og sterkustu þáttum mannlífsins. En henni hefir löngum verið gert lágt undir höfði á landi hjer; menn hafa verið álitnir fullir, ef þeim hefir flogið lag af munni, eða þá að minsta kosti allvel upp með sjer.

Þá hefi jeg tekið upp 1200 kr. styrk til Jóns Þorsteinssonar, til íþróttanáms. Mun það vera mjög áhugasamur og efnilegur íþróttanemi, og hefi jeg orðið var við mikinn áhuga hjá íþróttamönnum hjer í bæ fyrir því, að hann yrði styrktur.

Þá eru það 1800 kr. til náms handa Markúsi Kristjánssyni slaghörpuleikara. Þessi piltur er nú þegar orðinn svo leikinn í þessari list og er svo góðum gáfum gæddur, að nægja mundi, að hann væri eitt ár til náms erlendis, og myndi þá þekking hans og leikni koma að góðu gagni hjer heima.

Piltur þessi er mjög góðum gáfum gæddur. Hann er sonur Kristjáns Bjarnasonar, bróður Markúsar sál. skólastjóra. Kristján var fullhugi hinn mesti og sjógarpur. Hann drukknaði af skipi, sem fórst hjer framundan, og vissi enginn, með hvaða hætti það fórst.

Markús hefir sjerstaka hæfileika og löngun til þessa náms, og vill nú fara utan til að fullkomna sig.

Hefðu till. mínar um stofnun hljóðfæraskóla hjer í bænum náð fram að ganga, þá hefði ekki þurft að veita þennan utanfararstyrk.

Jeg skal svo ekki þreyta þm. meira á ræðu minni, úr því þeir vilja endilega hafa næturfund. Vona jeg, að þeir líti meira á það, hvað till. mínar eru sanngjarnar, heldur en hitt, þó jeg kunni að hafa móðgað þá eitthvað með orðum mínum, og láti þær ná fram að ganga.