11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Baldvinsson:

Jeg á litla brtt. á þskj. 305, sem jeg vildi fara um nokkrum orðum, þó að háttv. þm. Dala. (BJ) hafi líka gefið henni sín bestu meðmæli. Jeg hefi um nokkur ár þekt Hjálmar Lárusson skurðlistarmann, sem er hinn mesti snillingur í sinni grein. En jeg hefi, eins og aðrir, sem honum eru kunnugir, jafnframt vitað, að hann hefir átt við mjög þröngan efnahag að búa. Hann hefir ekki hlotið neitt af því fje, sem stjórnin úthlutaði síðast til styrktar listamönnum, þar sem þó mörgum sýndist, að hann hlyti að koma þar til greina, ekki síður en ýmsir aðrir, er styrkinn hlutu.

Hann er orðinn roskinn og heilsubilaður og getur ekki starfað að öðru en skurðlist sinni. Þó að þeir gripir, sem hann gerir, sjeu dýrmætir, þá er það ekki mikið fje, sem hann fær fyrir þá, sjerstaklega vegna þess, hve þröngt er um fje manna á milli, og smíðið er seinlegt, og vilja því smíðalaunin verða lág, þó að gripir hans með tímanum kunni að verða ómetanlegir. Af þessum ástæðum og af því, að maðurinn býr nú við svo þröngan kost, hefi jeg borið fram þessa brtt. um 1000 kr. styrk handa honum, og vona jeg, að hv. þm. taki þessari tillögu vel. Jeg ætlast ekki til, að þetta verði fastur styrkur, en hins ætlast jeg til, að þessi listamaður komi til greina við úthlutun listamannastyrksins framvegis, þó að hann hafi nú orðið útundan og sje þess vegna tekinn upp í fjárlögin.

Heimilisástæður hans eru slæmar. Hann á 5 börn í ómegð, og mjer er sagt, að kona hans sje heilsulaus og þurfi að fara á sjúkrahús sjer til heilsubótar einhvern næstu daga. Það má vitanlega segja, að hann geti eins og aðrir verkamenn leitað til sveitarinnar. En þegar tekið er tillit til hæfileika hans, vona jeg, að menn forði honum frá sömu forlögum og forfaðir hans, Hjálmar í Bólu, átti við að búa, og láti hann heldur njóta síns fræga ættföður og snillings. Hann er líka sjálfur hinn mesti snillingur, og fjárhæðin, sem honum er ætluð, ekki svo há, að neinum þurfi að vaxa í augum. Jeg treysti því háttv. þm. til að samþykkja þetta.