18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

1. mál, fjárlög 1924

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Það eru nokkrar brtt., sem jeg verð að víkja að nokkrum orðum, en skal vera stuttorður. Fyrst er brtt. á þskj. 369. um hækkun framlagsins til Hróarstunguvegarins. Jeg er henni samþykkur og finst hún eðlileg, þegar hækkaðir eru aðrir samskonar liðir.

Um till. hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) um Geysishúsið. skal jeg fyrst og fremst segja það, að jeg skil ekki alveg, hvers vegna þetta er talið með vegafje. En hvað svo sem líður rjettmæti þessarar byggingar, verð jeg að mótmæla henni, ef til þess er ætlast, að upphæðin eigi að dragast frá vegafjenu.

Þá eru ýmsar till. um það að auka við símana. En jeg er hálfhræddur við allar, þessar viðbótartill. Áður voru komnar 7 línur, upp á eitthvað 200 þús. kr., og nú á að bæta 65 þús. við, þó með þeirri athugasemd, að ekki skuli til þessa koma, nema tekjur hrökkvi til, Jeg ætla að sjálfsögðu ekki að fara að mótmæla nýjum símalagningum, en jeg vil aðeins vekja athygli á því, að hætta getur verið á því, að einmitt samþykt svona margra lína, sem litlar horfur eru á, að unt verði að framkvæma, geti orðið til þess að draga úr öllum framkvæmdunum, líka þeim, sem annars hefði verið kostur á. Það er ekki ólíklegt, að athugasemdin verði meira notuð en liðurinn sjálfur.

Um brtt. hv. 1. þm. Reykv. (JakM) við stafl. V, um uppbót til starfsmanna landssímans og símakvenna við bæjarsímann, skal jeg geta þess, að landssímastjórinn vildi fá allríflega viðbót við laun símamanna, en jeg sá mjer ekki fært að flytja brtt. í þá átt, sem landssímastjórinn fór fram á, við fjárlagafrv. Það hefði verið nær að breyta launalögunum, því það rekur hvort sem er að því fljótlega, að gera þarf gagngerða breytingu á þeim, en hún er varla tímabær nú. Álít jeg því rjettast að láta þetta einnig bíða þess. Hins vegar var mjer það fullljóst, að nauðsyn bar til þess að hækka laun hjá vissum flokki þessara starfsmanna, sem harðast hefir orðið úti. Jeg held nú ekki, að símamenn sjeu yfirleitt ver launaðir en alment er um opinbera starfsmenn, en hitt er víst, að stúlkurnar við bæjarsímann eru miklu ver launaðar. Þær hafa að stofnlaunum 900 kr., en sanngjarnt væri, að þær hefðu sama og stúlkurnar við landssímann, því þær hafa að minsta kosti ekki minna að gera en þær. Hefir háttv. fjvn. einmitt átt kost á því að kynna sjer þetta með eigin augum nú nýlega. Og þó símastúlkurnar starfi nú ekki nema hálfan daginn í einu, þá mun vera í ráði að breyta þessu á þá leið, að þá verður enn erfiðara fyrir þær að vinna sjer inn nokkuð aukreitis; og það sjá víst flestir, að á 111 kr. mánaðarkaupi lifir engin stúlka hjer í Reykjavík, að minsta kosti ekki, ef hún á engan að. En þær, sem eru í foreldrahúsum, kunna að geta komist af með þau laun.

Þá kem jeg að 13. gr. D. IX, sem er nýr liður samkvæmt till. fjvn. og hljóðar um uppbót til A. L. Petersens, fyrrum símastjóra í Vestmannaeyjum. Á þinginu í fyrra kom fram þáltill., eins og menn muna, um að stjórnin ljeti rannsaka kærumál þessa manns og gera út um þau. Þessi till. var feld, en í Sþ. var síðan samþykt till. um að alt málið væri rannsakað í heild og álit rannsóknarmanna síðan lagt fyrir þingið.

Samkvæmt þessari þál. skipaði stjórnin síðan þriggja manna rannsóknarnefnd, og áttu sæti í henni tveir lögfræðingar og einn símamaður. Þessi nefnd skilaði nú í þingbyrjun áliti sínu, og hefir háttv. fjvn. haft það til meðferðar.

Jeg ætla mjer ekki að dæma neitt um mál þetta, aðeins benda á það, að þar sem hv. fjvn. leggur til, að Petersen sjeu greiddar 10000 kr., þá er það í raun og veru sama og að hann fái 15000 kr., þar eð honum voru greiddar af fyrverandi fjrh. (MG) 5000 kr. „í eitt skifti fyrir öll“ og afsalaði hann sjer þá frekari kröfum á hið opinbera.

En nú hefir rannsóknarnefndin talið sanngjarnt, að honum sjeu greiddar 5000 —10000 krónur, og segir hún um þetta atriði:

„Nefndin býst einnig við því, að krafa Petersens fari ekki svo langt fram úr hófi, að 10 þús. kr. sje ekki nær hinu rjetta en 5 þús kr.“ — eða að öllu samanlögðu 10000 kr., og ætti þá fullnaðaruppbótin að vera 5000 kr.

Um leið og jeg hefi rifjað upp mál þetta, hefi jeg gert grein fyrir því, hvað gert hefir verið í málinu samkvæmt þál. síðasta Alþingis.

Því hefir hv. fjvn. lagt til, að veittar væru 20 þús. kr. til rafmagnsveitu á Hólum. Hvanneyri hefir þegar verið raflýst, og mælir öll sanngirni með því, að Hólar fái samskonar lýsingu, enda hefir þess verið beiðst.

Jeg vildi því ljá þessari till. liðsinni mitt.

Frá háttv. fjvn. er engin brtt. við C-lið 13. gr., um styrk til strandferða og flóabáta. Aftur á móti liggur fyrir nál. frá samgmn. Gerir sú nefnd engar brtt. við fjárlagafrv., en telur víst, að til meiri útborgana komi á þessum lið, sem er einungis áætlunarliður, og því má láta hann standa óbreyttan.

Í þessu sambandi vil jeg skýra hv. deild frá því, að nýja strandferðaskipið, Esja, er væntanlegt hingað á morgun.

í sambandi við XIX. lið á þskj. 369 skal jeg geta þess, að forseti Búnaðarfjelagsins hefir tekið fram, að styrkur sá, er þar um ræðir, verði ekki meiri en 20000 kr. Annars er þessi fjárveiting mjög svo bundin við frv. til jarðræktarlaga, sem nú liggur fyrir þinginu, en óútsjeð er um afdrif þess.

Þá er brtt. á þskj. 379, frá báðum hv. þm. N.-M. (ÞorstJ og BH), um styrk til Víglundar Helgasonar á Hauksstöðum.

Brtt. þessi kom mjer satt að segja nokkuð ókunnuglega fyrir sjónir, því jeg vissi ekki betur en að þetta væri algerlega útkljáð mál.

Maður þessi hefir aldrei verið fastur starfsmaður ríkisins, en mun hafa verið línueftirlitsmaður um nokkurt skeið. Fyrir nokkrum árum datt hann ofan úr símastaur og meiddist hann talsvert í baki. Síðan hefir hann fengið þrautaköst, sem ágerast, og telst læknum svo til, að ekki sje ósennilegt, að þau stafi af meiðslum þessum, en ekki eru þeir þess samt fullvissir. Þess vegna var það í fyrra, að jeg samþykti, að landssímastjóri mætti greiða manni þessum 1500 kr. í eitt skifti fyrir öll, og eftir brjefi að dæma, sem jeg fjekk frá honum, gat jeg ómögulega skilið öðruvísi en þar með væri þetta útkljáð mál að öllu leyti.

En nú er farið fram á, að hann fái í viðbót 300–500 kr. árlega, og fæ jeg ekki sjeð, að hann eigi neinn rjett á því.

Það er hart, ef menn, sem gert hafa samning við stjórnina um að máli skuli lokið, skuli síðan koma til þingsins með kröfur sínar á ný.

Þessi maður er að vísu fátækur barnamaður, og má því virða honum til vorkunnar, þó að hann reyni með öllu móti að afla sjer tekna, en samt tel jeg ekki rjett að veita styrk þennan, nema þá ef fullar sannanir kæmu frá læknum um, að þrautaköstin stafi beinlínis af áðurnefndum meiðslum.

Þá kem jeg að XXXV. lið á þskj. 369, sem er brtt. frá hv. fjvn., um að heimila stjórninni að greiða Eimskipafjelagi Íslands alt að 60 þús. kr., ef nauðsyn krefur. Jeg verð að þakka hv. fjvn. fyrir það traust, sem stjórninni er sýnt með þessari till. Annars var jeg ekki viðstaddur, þegar hv. frsm. (MP) talaði, og veit því ekki, hvort þessi fjárveiting er nokkru skilyrði bundin eða hvort stjórnin á að meta, hve nær nauðsyn krefur.

Jeg býst við, að verði heimild þessi samþykt, þá komi nauðsynin bráðlega, og væri því gott að vita, hvort stjórnin á eingöngu að fara eftir eigin áliti í þessu efni.

Umræður hafa nú orðið svo langar, að jeg vil ekki tefja meira, enda þótt jeg hefði gjarnan viljað minnast á einstaka fleiri brtt.