18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

1. mál, fjárlög 1924

Benedikt Sveinsson:

Jeg hefi borið þessa brtt. XXII. á þskj. 369 fram samkvæmt áskorun kjósenda minna; hefir þingmálafundur norður þar samþykt að leita þess, að búandanum í Hrauntanga á Öxarfjarðarheiði væri veittur sami styrkur sem öðrum mönnum, sem búa á eyðistöðum eða við fjallvegu, svo sem ábúanda Kvískerja, Fornahvamms og Bakkasels. Hefi jeg ekki farið fram á hærri fjárveitingu en kjósendur mínir hafa óskað, þótt þessi staður sje fult eins illa settur til þess að vera bygt ból sem hver hinna, er jeg nefndi. Bærinn er uppi á miðri Öxarfjarðarheiði, og er þar vetrarríki mikið, en landkostir litlir, svo að ekki er hægt að rækta þar tún. Hefir oft farið svo, þó að reynt hafi verið að byggja þarna, að þar hefir eyðst aftur bygðin. Er þó ilt, ef niður fellur aftur bygð þar, því að umferð er allmikil um heiðina. Vissi jeg einu sinni til, að læknir var þar á ferð við þriðja mann í hríð mikilli um vetur, og urðu þeir að leita sjer náttstaðar í Hrauntanga, en þá var þar engi bygð, og voru þeir því nauðulega staddir; en það barg þeim, að einn kofi hjekk uppi, og fengu þeir haldið þar lífi um nóttina.

Vona jeg, að háttv. þm. geri ekki undantekningu á um þennan stað, heldur veiti bóndanum sama styrk sem öðrum, er líkt eru settir. Þörfin er þarna engu minni en víða annarsstaðar.